Nágrannarnir mínir eru nú bara fyrir neðan allt.
Þau búa í kjallaraíbúðinni fyrir neðan okkur og eiga tvo hunda, sem er í sjálfu sér ekkert vandamál mín vegna þar sem mér líkar ágætlega við hunda, en það sem setur alvarlegt strik í reikninginn er að umtalaðir nágrannar virðast aldrei hafa lært almennt hreinlæti.
Hundarnir þeirra gera þarfir sínar í garðinum, eins og hundar eiga til, en í staðinn fyrir að þrífa hann upp jafnóðum þá láta þau hundaskítinn safnast upp í garðinum dögum saman áður en þau láta til skarar skríða og þrífa þetta upp. Þetta er ekki hundi bjóðandi (tjehehehehe…. hrrm afsakið arfaslaka grín-tilraun.)
Kettir kunna allavega einhverja mannasiði þegar það kemur að svona löguðu, sjálfur á ég tvo ketti sem nota einnig garðin til að gera þarfir sínar en þeir grafa allavega holu í moldinni og fela skömmina.
Við erum nokkrum sinnum búin að segja þeim hreint út að þau verði að þrífa upp hundaskítinn því við erum búin að þurfa að horfa upp á þetta í marga daga, og venjulega hlýða þau alveg skipun en það líður síðan ekki á löngu fyrr en þetta hverfur allt aftur í sama farið og ég stend sjálfan mig að því að stíga í vikugamlan hundaskít.
Ef ég á að þurfa að láta þetta yfir mig ganga mikið lengur sé ég fram á dag þar sem ég kem heim úr kurteisisheimsókn til nágranna minna útataður í nágranna- og hundablóði.