Ég nennti nú ekki að lesa öll svörin, en eins og einhverjir hafa eflaust bent á snýst þetta um skilgreiningu hvers og eins á hugtakinu vinna.
Ef þú flokkar vinnu aðeins sem verðmætasköpun sem fólk fær greitt fyrir í formi launa samkvæmt lagalegri skilgreiningu launa, þá er skóli vissulega ekki vinna… en þá er til dæmis sjálfstæður atvinnurekstur ekki vinna heldur, sérstaklega ekki ef rekið er með tapi.
Samkvæmt þinni skilgreiningu er semsagt maður sem rekur búð ekki að vinna… og svona 95% íslendinga unnu lítið eða ekkert alla sína ævi fyrir svona 1850-1900 þar sem fólk fékk hvorki neitt borgað né var að hjálpa fyrirtæki eða neinum öðrum, það er að segja afhenda einhverjum vöru eða þjónustu.
Ef við breytum nú aðeins skilgreiningunni og teljum alla afhenta þjónustu vinnu þá getum við talið með kaupmanninn á horninu, en heimavinnandi fólk, húsmæður og bændur liðinna alda til dæmis fá ekki að vera með, og ekki skóli heldur.
Ef við víkkum skilgreininguna enn meira og teljum alla verðmætasköpun vinnu þá eru bændur og húsmæður í vinnu, og skóli hlýtur að teljast vinna líka, en þá verðum við tæknilega séð að telja allt sem einhver gerir sem skapar einhver verðmæti á einhvern hátt, sparar einhverjum pening/tíma eða auðveldar einhverjum lífið á einhvern hátt, vinnu… og það er svosem vel hægt að færa rök fyrir því að það sé of víð skilgreining á hugtakinu vinna.
Í rauninni held ég að fæstir notist við einhverja eina af þessum eða öðrum skilgreiningum á hugtakinu vinna, heldur meti hlutina í hverju tilviki fyrir sig, þannig að á endanum þýðir í raun lítið að vitna í hina og þessa skilgreiningu, þetta snýst bara um hvað fólki finnst, þér finnst skóli ekki vera vinna, og fólk hlýtur að skilja það… alveg eins og þú hlýtur að skilja af hverju sumum finnst rétt að kalla hann vinnu.
Ein hugsun í lokin… ef við myndum reikna út nákvæmlega verðmæti þess mannauðs sem skapast á hverjum klukkutíma við skólagöngu meðalnemanda, segjum menntaskólanema sem er að taka stúdentspróf, þá get ég lofað þér því að “tímakaupið” sem hann er að vinna sér inn í formi hækkandi launa í framtíðinni væri mun hærra en laun meðalmanneskju sem er ekki með stúdentspróf :)