Hugtök eins og tilfinningagreind (sem er orðskrípi raunar), eru illmælanlegar stærðir sem ekki er hægt að bera saman við önnur mæligögn. Þannig ég get ekki gert rannsókn á hópi manna og sagt, þeir sem mælast með háa tilfinningagreind eiga fleiri vini eða eitthvað þess háttar. Það eru allar líkur á því að þú fengir gjörólíkar niðurstöður frá tveimur mismunandi mælingarmönnum. Það að geta skilið tilfinningar annarra og að geta sett sig í spor annarra er vissulega öfundsverður hæfileiki, en það er hæfileiki eða gáfur, en ekki greind. Sami orðarunglingur á sér stað í ensku.
Greindarvísitala er hins vegar vel skilgreint fyrirbrigði, ef þú tekur mörg greindarvísitölupróf hjá mörgum mismunandi mælingarmönnum færðu áþekkar niðurstöður (þó það þurfi að gæta þess að það eru mismunandi skalar). Greindarvísitalan er svo vel skilgreind mælistærð að hana má bera saman við önnur mæligögn og kanna fylgni á milli greindar og annarra þátta, svo sem námsárangur eða lífsgæði síðar á ævinni.
Bækur Howard Gardners eru vel markaðssettar og hljóma vel í eyrum þeirra sem ekki eru bráðgreindir því þar er öðrum hæfileikum gert hátt undir höfði. Það í sjálfum sér er allt í lagi að meta aðra þætti en greind í fari manna að verðleikum. Það er hins vegar vitleysa að halda því fram að um vel skilgreind fræði sé að ræða. Miðað við hversu skammt er síðan þessar hugmyndir voru birtar, hafa þær alveg örugglega verið gagnrýndar mun meira en greindarvísitölupróf nokkurn tímann, enda gífurlega óskipulögð og fjarstæðukennd oft á tíðum.