Varúð, unglingadrama. Ef þú hefur ekki áhuga á slíku skaltu forðast að lesa lengra.
You have been warned.

——–

Ég þarfnast nauðsynlega ráðlegginga og jafnvel, ef einhver er í stuði til þess, smá hughreystingar.

Þannig er mál með vexti að ég á tvær vinkonur í skólanum sem vill svo til að hata hvor aðra.
Mjög skemmtileg staða.

Síðasta vor var bekkjunum skipt upp og tók nýja skiptingin gildi þegar skólinn byrjaði aftur í haust.
Ég var mjög ánægð því ég lenti með báðum vinkonum mínum í bekk. Þær voru aftur á móti ekki jafn ánægðar. . .

Það sem af er vetri hef ég verið milli steins og sleggju, reynt að vera jafnt með báðum, en þær eiga í stríði sín á milli sem ég get ekki stöðvað.
Til að byrja með virtist þeim koma vel saman en það entist ekki og á tímabili var það orðið þannig að ég hlustaði á aðra (sem er ‘harða týpan’) baktala hina stanslaust og svo kom hin (frekar viðkvæm) og sagði mér frá því hvað henni þætti þessi ‘harða’ horfa illilega á sig og að henni liði illa yfir því.

Ég hef talað við báðar um þetta (í sitthvoru lagi) og skýrt mína stöðu en það virðist ekki breyta neinu.
Lengi hef ég ætlað mér að reyna að tala við þær báðar í einu en þær forðast í lengstu lög að segja nokkurn skapaðan hlut þegar hin er viðstödd.
Iðulega er ég búin að skipuleggja hvað ég ætla að segja en brestur síðan kjark þar sem óvildin er nánast áþreifanleg þegar þær eru á sama stað á sama tíma.

Rétt áðan versnaði þó staðan til muna þegar þessi ‘viðkvæma’ hringdi í mig og sagðist ætla að skipta um bekk.
Hún sagði að ég væri sú eina sem hún myndi sakna úr gamla bekknum og spurði hvort ég vildi skipta með henni.
Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja og sagðist tala við hana á morgun um þetta.

Nú er mér stillt upp við vegg og sagt að ég skuli velja á milli vinkvenna minna.

Hvorug þeirra á neina aðra nána vinkonu.
Ekki ég heldur.

Lumar einhver á hollráðum?

Takk fyrir þolinmæðina ef þú last þetta allt saman.

——–

Ef þú last þetta allt og er nákvæmlega sama biðst ég afsökunar á að hafa eytt dýrmætum tíma þínum. . .

Skítkast vinsamlegast afþakkað.