Þú getur ekki hugsað um glæpina í sértilvikum, þá fellur allt um sjálft sig í þessari rökræðu (reyndar að mestu tilfinningarök, en samt). Morð er glæpur og jafnvel þótt þau séu stundum hugsanlega réttlætanleg frá einhverju ákveðnu sjónarhorni, þá eru þau alltaf röng og oftast eru þau ekki auðveldlega réttlætanleg. Oftast á fólk það ekki skilið að vera drepið.
Við verðum að líta fyrst og fremst á mest áberandi hlið glæpsins, þ.e. morð sem eitthvað sem er rangt á alla vegu.
Þú segir að nauðganir og barnaníð séu allt öðruvísi glæpir og mun sjúkari en morð. Ég get eiginlega ekki verið sammála þessu. Vissulega ertu að valda manneskju mjög miklum þjáningum með hinum fyrrnefndu, en morð er einfaldlega fullkomin frelsissvipting. Það myndi enginn nokkurn tíma velja það að vera myrtur. Mér finnst það óhugnanlega grimmilegt að svipta einhvern frelsinu til að lifa, og mér finnst eiginlega varla skárra að svipta einhvern frelsinu til þess að deyja á sinn eigin hátt (sjaldnast ræður fólk því hvernig það deyr, en þetta er samt ótrúlega mikilvægur réttur ef þú hugsar út í það).
Að lokum vil ég aðeins búa til mynd af því hvernig ég hugsa þetta: Sjáðu fyrir þér mann sem króar unga konu af í dimmu húsasundi. Hún reynir að flýja, hann lemur hana og brýtur einhver bein til þess að halda henni í skefjum. Konan, sem er búin að vera óttaslegin frá upphafi, fyllist lamandi skelfingu, því hún veit að það sem gerist næst er henni óviðráðanlegt. Maðurinn nauðgar henni. Hún sleppur lifandi frá honum og kemst á spítala. Hún lifir með ör á sálinni, en það mikilvægasta er að hún lifir. Trúir þú því virkilega að þessi kona, eins andlega löskuð og hún kann að vera eftir atvikið, hefði frekar viljað vera myrt? Virkilega? Því ef þú vilt meina að morð sé skárri glæpur en morð, þá þarft þú eiginlega að vera þeirrar skoðunar að ef þú værir í sömu sporum myndirðu frekar vilja deyja en vera nauðgað.
Mér þætti mjög gaman að fá svar við þessu, þetta er áhugaverð umræða.
Bætt við 11. desember 2009 - 05:58
Eitt sem ég vildi bæta við er það að mér finnst einhvern veginn eins og fólk sé orðið de-sensitized fyrir morði, því við sjáum það svo oft í bíómyndum og í fréttunum. Mér finnst eins og fólk geri sér varla grein fyrir því lengur hvað morð er sjúkur glæpur. Morð af ásettu ráði er með því viðurstyggilegasta sem ég veit um, ef ekki bara það viðurstyggilegasta. Þúst, þjóðarmorð er verra, en það er undirflokkur.