Venjulega nenni ég nú ekki að taka þátt í innantómum argaþrasræðum á unglingavefsvæðum. En undantekningar geta verið skemmtilegar :)
DGR
Varanlegar matvörulækkanir.
Áttu við
verð á matvörum? Og hvað áttu við með varanlegar? Verður matvöruverð lægra næstu 10 árin? Næstu 100 árin? Það er ómögulegt að segja til um og óvarlegt mjög að fullyrða um varanleika lækkaðs matvöruverðs. Matvöruverð myndi að öllum líkindum lækka við inngöngu vegna þess að tollar af innflutnum matvörum frá öðrum ESB-ríkjum féllu niður. Hvað hins vegar með matvöru frá þjóðum utan ESB? Og hvað með innlenda matvöru? Hvort ætli sé æskilegra, þegar viðreisn efnahagskerfisins er höfð að leiðarljósi, að hver Íslendingur greiði 50 krónur til erlendra ríkja (út úr íslenska hagkerfinu) fyrir tómat eða að hver Íslendingur greiði 75 krónur til íslenskra framleiðenda (innan íslenska hagkerfisins) fyrir tómat? Sennilega myndu íslenskir bændur nauðugir lækka vöruverð, sem kæmi að sjálfsögðu niður á gæðum og gerði rekstur þeirra enn erfiðari - og ekki má hann við því. Og ekki benda mér á mjög svo umdeilt styrkjakerfi ESB innan landbúnaðar. Ef satt væri, eins og ESB-sinnar halda fram, að bændur myndu bara hafa það miklu betra innan ESB en utan vegna styrkjakerfisins þá væri andstaða bænda við inngöngu Íslands ekki jafnheiftarleg og raunin er.
tollar milli ESB og Íslands myndu falla niður.
Vissulega. Hvað hefur það í för með sér? Ódýrara og auðveldara verður fyrir fólk að flytja inn vörur frá útlöndum (öðrum ESB-ríkjum þ.e.) og ódýrara að kaupa innfluttan varning. Þetta mun aðallega hafa þrennt í för með sér, 1) aukið streymi fjármuna úr landi (sbr. að ofan), 2) erfiðari markaðsaðstæður fyrir innlenda framleiðendur, sem einn af öðrum myndu leggjast af eða flytja starfsemi úr landi og 3) tekjutap ríkissjóðs (augljóst). Og hvað með tolla gagnvart ríkjum utan ESB? Aðalbreytingin þar á yrði sú að við fáum engu um það ráðið hvernig tolla við leggjum á vörur frá löndum utan ESB. Við getum ekki lengur gert tollasamninga við önnur ríki - þ.e. samningsfrelsi okkar yrði úr sögunni. Er kannski ætlunin að hætta bara allri verslun við ríki utan ESB? Stríðir það ekki gegn orðræðu ESB-sinna um einangrun?
Minni spilling í stjórnmálum með auknu gegnsæi og minna af beinum tengslum stjórnmálamanna og viðskiptalífs.
Þetta er órökstudd, innantóm þvæla. Aukið gegnsæi? Gegnsæi í ESB-stjórnmálum? Þetta er í besta falli misskilningur. Lýðræðishallinn innan ESB (sem er vart umdeildur) er tilkominn einmitt vegna þess að þar er nánast alls ekki neitt gegnsæi! Reglusetningarkerfið er svo flókið að ógerningur er fyrir fólk að átta sig á því hver tekur ákvarðanir, sem kunna að koma sér illa fyrir það. Þar fyrir utan er til merkis um ógegnsæi og lýðræðishalla að ómögulegt er fyrir fólk í landi A að hafa áhrif á val þingmanns Evrópuþingsins frá landi B - þó svo að þingmaður frá landi B geti haft bein áhrif á málefni lands A! Þar fyrir utan hefur Evrópuþingið ekki einu sinni mest völd við reglusetningu ESB, heldur ráðherraráðið. Vilt þú kannski útskýra hvernig gegnsæi og lýðræði er háttað þar?
Auðvitað Evran, íslenska krónan er handónýtur gjaldmiðill og hann á ekkert eftir að styrkjast.
Hver ert þú, að fullyrða um hvort krónan muni styrkjast nokkurn tímann? Almenn skynsemi segir mér að gjaldmiðill, sem augljóslega er of lágt skráður, muni leitast við eðlilegri skráningu og þ.a.l. styrkjast. Vel má vera að krónan er ónýt. Hins vegar er hægara sagt en gert að taka upp evru - slíkt gerist ekki við inngöngu. Nú uppfyllir Ísland 0 af 5 skilyrðum og guð má vita hve mörg ár/áratugi tæki að uppfylla þau öll. (Að auki: Þótt evran sé auðvitað guðdómleg og æðisleg er hún ekki skrifuð með hástaf frekar en aðrir gjaldmiðlar í heiminum).
Mun meira hlutverk Íslands í alþjóðasamstarfi nato er ekki alveg að þjóna sem þungamiðja íslands í alþjóðasamstarfi eins og sambandið hefur gert.
Meira hlutverk Íslands í alþjóðasamstarfi já … ég er hræddur um ekki. Með inngöngu í ríkjabandalagið ESB mun rödd Íslands út á við einmitt þagna. Hún mun hverfa inn í rödd ESB - hún mun verða prómill af rödd ESB. Sjálfstætt álit Íslands út á við verður ekki lengur til - pólitísk innlegg í alþjóðaumræðu frá Íslandi heyra sögunni til. Þau munu þess í stað koma frá Brüssel, m.a. í umboði Íslands. Ég skil ekki hvað þú átt við með því að “sambandið” (líklega ESB) hafi þjónað sem þungamiðja Íslands í alþjóðasamstarfi, en ekki NATO. Kannski áttu við að ESB mundi við inngöngu hefja að þjóna sem þungamiðja Íslands í alþjóðasamstarfi. Vissulega - með þeim hætti sem að ofan er líst. Fýsilegt? Það finnst mér ekki.
Við getum ekki lengur verið utan sambandsins við erum einfaldlega of lítil.
Þetta er markleysa, enda má allt eins (og raunar enn frekar) segja að Ísland sé of lítið til að ganga í ESB, enda myndi ESB éta það til agna vegna smæðar Íslands annars vegar og græðgi ESB hins vegar. Um þetta mætti hafa langa tölu - gerum það e.t.v. síðar.
“Það er ekkert nema goðsögn að útlendingar séu á höttunum eftir auðlindum Íslendinga. Notuð af fólki sem er á móti ESB og betri samskiptum Íslendinga við nágrannaþjóðir okkar. Þessi fullyrðing er sprottin frá öfgahópum, bæði til hægri og vinstri sem eru mótfallnir nánara samstarfi þjóða heimsins.”-hef þetta eftir bloggara sem heitir Jón Frímann
Og hvenær urðu orð einhvers Jóns úti í bæ að heilögum sannleika? Þróun ESB er einsleit. Leynt og ljóst er stefnt að frekari samruna. Og hvað felst í honum annað en sameiginleg nýting auðlinda aðildarríkja (ef svo skyldi kalla). Nýlega sendi Brüsselvaldið Írum bréf með tímafresti til breytinga á stjórnarskrárákvæði þeirra um að auðlindir mættu aðeins nýtast Írum. Að viðlögðum himinháum sektum. Hvers vegna? Vegna þess að ESB hefur engan áhuga á sameiginlegri nýtingu auðlinda? Í dag getum við með einföldun sagt að hver Íslendingur eigi 1/300.000 af auðlindum Íslands. Innan ESB getum við eftir x mörg ár (tímaspursmál) sagt að hver Evrópubúi (þ. á m. Íslendingar) eigi 1/500.000.000 af öllum auðlindum stóra Evrópuríkisins (ESB). Ef við teljum 1/300.000 af auðlindum Íslands vænlegra en 1/500.000.000 af auðlindum Evrópu erum við betur sett utan ESB en innan hvað auðlindir varðar.
Kostir við aðild eru svo ótvíræðir að einungis mökkheimskt og blint fólk einsog þú, sem getur ekki opnað augan smá útúr þessum helvítis einangrunarhelli sem þú vilt að Ísland sé sjá þá ekki.
Það er nefnilega það. Kannski rétt að benda þér á könnun sem fór fram á forsíðu huga.is í síðasta mánuði þar sem spurt var: “Vilt þú að Ísland sæki um aðild að ESB?” Ef ég man rétt sögðu 52% NEI og 20% JÁ. Restinni var sama. Þú ættir ekki að taka þér of stór orð í munn um andstæðinga aðildar Íslands að Evrópubákninu.