Dettur ekkert í hug nema bara já, Fear and Loathing. Svo að ég ætla að deila ofurharða draumnum sem mig dreymdi í nótt, hefði ekkert á móti því að upplifa eitthvað svona.
Ég var stödd í sumarbústað með vinum og fólki sem ég kannaðist ekkert við. Þetta var um kvöld og allir voru uppteknir við sitt thing, þegar það er bankað á útidyrahurðina. Einhver ansaði og fyrir utan stóð hópur fölra, skikkjuklæddra manna. Einn þeirra var augljóslega leiðtoginn en hann var hávaxnari en hinir og snobbaður í fasi.
Þeir gengu inn eins og þeir ættu pleisið en enginn sagði þó neitt. Síðan tilkynnti aðalgaurinn okkur að þau væru vampírur og ætluðu að drekka úr okkur blóðið.
Ég hljóp strax úr forstofunni og ætlaði að finna mér felustað, fór inn í eitt herbergjanna og rakst á vinkonu mína sem var að koma úr sturtu. Ég sagði henni frá ástandinu, hún öskraði og fór svo. Ég vissi að vampírurnar myndu finna mig fljótlega svo ég var að reyna að upphugsa eitthvað sem gæti tafið þær. Þá mundi ég eftir naglalakkinu sem ég hafði tekið með mér.
Ég greip um tíu flöskur af mismunandi glimmerlituðu naglalakki einmitt þegar ein vampíranna opnaði dyrnar. Það var eldri kona sem var greinilega virt á meðal vampíranna. Ég útskýrði fyrir henni ætlun mína og við fórum fram og settumst við eldhúsborðið. Ég bauð henni naglalökkun en hún afþakkaði pent, sagði að það væri ekki hennar forté.
Þá varð ég ráðalaus um hvað við gætum gert til að stoppa vampírurnar. En, þá fóru vampírurnar að horfa á mig skringilega. Húðin mín byrjaði að fölna af einhverjum ástæðum og vampírurnar ákváðu því að taka mig inn í hóp þeirra. Þær álitu mig vera eina af þeim.
Eins og oft með drauma þá allt í einu kom allt annað scenery; ég var ekki lengur vampíra heldur hluti af flokki af vampire slayers. Ég ásamt hinum slayerunum vorum stödd í risavöxnum myrkvuðum “sal.” Alltaf byrjaði það eins, við fengum örfáar sekúndur til að velja okkur vopn, síðan földum við okkur á meðal steinanna í salnum, og þá komu vampírurnar og bardaginn hófst. Þetta endurtók sig oft og slayerarnir höfðu ávallt yfirhöndina.
Það skemmtilegasta var að ég fann ekkert fyrir meiðslunum og var nánast ósigrandi hvort sem er, mjög Matrix-esque.