Smá pólitískt nöldur hérna, um málefni sem mættu vera meira áberandi.

Er ég eina sem finnst eitthvað mikið bogið við það hvernig námsmenn og ungt fólk er stutt fjárhagslega?

Ok, skoðum bara þessa þrjá flokka af ungu fólki sem er venjulega talað um:

Framhaldsskólanemar: Þeir sem þurfa að fara frá heimili sínu til að fara í framhaldsskóla (og eftir 2006 bara allir sem langar ekki að búa hjá foreldrum sínum, þar sem reglunum var breytt), eiga rétt á dreifbýlisstyrk. Fullur styrkur er eitthvað kringum 100 þús á önn. Þetta er allt gott og blessað. Fínt að styrkja þá sem þurfa á smá pening að halda, það er ekki auðvelt að fara burt frá foreldrunum til að fara í skóla.

Hinsvegar er mjög auðvelt að svindla á kerfinu. Nemendur stunda það að skrá lögheimilið annarsstaðar til að fá styrk. Meira að segja nemendur sem búa hjá foreldrum sínum frítt flytja lögheimilið til að fá 100 þús á önn í vasapening! Og takið eftir, stór hluti af framhaldsskólanemum vinna með skóla og lifa bara góðu lífi. Þetta eru að einhverju leyti krakkar sem eiga ennþá að vera á framfærslu foreldra sinna og ættu þess vegna í rauninni ekki að þurfa neina hjálp með peninga.

Ég bjó sjálf á heimavist, borgaði sjálf leigu og mat og með þessum styrk átti ég yfirleitt bara ágætlega mikla peninga.

Næst er komið að háskóla. Fyrir þá sem búa úti á landi og þurfa að fara til Reykjavíkur til að fara í háskóla er þetta ekkert djók. Allt í einu er maður kominn í nám sem er bara ekkert í boði að vinna með. Kannski einn og einn dag, smápeningar mánaðarlega. Þá ætlar maður að snúa sér að LÍN. En nei, heyrðu, þá er í boði að fá LÁNAÐA peninga. Reyndar á mjög góðum kjörum, en lán samt sem áður.

Og takið eftir að ekki bara skerðist lánið eftir því hversu mörgum einingum maður er í, heldur líka eftir árslaunum. Allt í einu er LÍN farið að pæla í því. Af hverju er það ekki gert í menntaskóla? Af hverju þarf allt í einu að vera að skammta fólki peninga eftir því hversu duglegt það er í skóla og hversu fátækt það er? Ég sá ekki að það breytti neinu þótt krakkarnir sem fengu dreifbýlisstyrk væru búnir að vinna sér inn hálfa eða heila milljón á árinu, allir fá sömu tölu.

Þegar maður er kominn í háskóla er maður líka ekkert að sníkja pening af mömmu og pabba. Það er fullt af fólki þarna með fjölskyldu, börn … Þau geta ekki lifað á námslánunum, sem þýðir að það er mjög erfitt að fara í háskólanám þegar maður er kominn í þann pakka.

Svo er þriðji hópurinn, fólkið sem gafst upp á þessu rugli og fór að vinna. Þeir sem halda vinnunni eru kannski í góðum málum. Þessi fjöldi sem var að missa vinnuna nýlega er í vondum málum. Þau eiga varla rétt á neinum námslánum, því árslaunin éta þau upp. Þau ætla kannski að nýta tímann til að læra og svo þegar kemur að sumarfríi og enga vinnu er að fá á fólk ekki einu sinni rétt á atvinnuleysisbótum (skilst mér, megið endilega leiðrétta mig ef það er rangt).

Þar að auki var fellt niður ókeypis í strætó fyrir þá sem eru ekki með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu (sem kemur niður á námsmönnum sem hafa ekki flutt lögheimilið), einmitt þeir sem eru mjög oft í þeirri stöðu að þurfa mjög mikið á strætó að halda.

Þeir sem sleppa því að fara í skóla og fara bara á atvinnuleysisbætur, þeir fá kannski ekki mikinn pening. En þeir fá BÆTUR, ekki LÁN. Ég skil það ekki.


Semsagt, það sem ég er að segja er að ég skil ekki af hverju allir geta fengið styrki og bætur, en háskólanemar mega fá lán? Hvar eru rökin fyrir því?


Plús það að mér sýnist vera búið að fella niður eina styrkinn sem var í boði fyrir nemendur Háskóla Íslands, úr hvatningar og afrekssjóði. Ekki það að það væru margir sem vissu af honum fyrir … Það er allavega búið að taka allar upplýsingar um þetta útaf HÍ síðunni.


Svo vil ég bæta við af því það eru kosningar. Ég las hvað flokkar hefðu að segja við stúdenta þegar spurt var um öll þessi mál. Sumir vissu ekkert, sumir sögðu að það þyrfti að senda peningana annað. Framsóknarflokkurinn lofar öllu góðu og býður manni smokka (ég treysti ekki flokki sem skiptir um málefni eftir því hvar eru mest óákveðin atkvæði í boði) … Og hvað getur maður gert í þessu?


Æi, væl … Ég ætti frekar að læra fyrir próf heldur en að eyða orkunni í að vera reið.