Á ég að trúa því að æska Íslands finni ekkert þarfara við tíma sem gefst í framhaldsskólunum við það að kennsla falli niður en að hírast yfir tölvuskermi, gefandi sig á vald tilgangslausra tímaþjófa á b.v. feisbúkk? Þið vitið að Internetið er ekki nema áratugsgamalt eða svo, er það ekki? Ímyndið ykkur þær hremmingar sem fólk, sem nú er komið til vits og þroska (ólíkt ykkur), mátti þola þegar kennari boðaði forföll og það þurfti að bíða í heilar 40-50 mínútur án þess að komast á feisbúkk eða jútúb eða nokkuð helvítis Internet yfir höfuð! Hvað gerði þetta blessaða fólk, sem var svo ótrúlega óheppið að vera ungt fyrir 10 árum síðan eða meira?
Sennilega myndir þú halda að það hafi setið aðgerðarlaust og horft á mínútuvísinn á skólaklukkunni mjakast áfram. En viti menn - fólkið fagnaði kennaraforföllum þá, eins og nú, og það þrátt fyrir netleysið! Sumir nýttu tímann til leikja, aðrir til gamans, einhverjir til rökræðna um pólitík, stöku kærustupar til kynferðislegra athafna, annaðhvort í allra augliti eða í einrúmi, og þannig mætti lengi telja. Jafnvel brá svo við að metnaðarfullir menntskælingar notuðu tímann til náms og urðu betur settir en aðrir fyrir vikið. En þetta þekkist víst ekki lengur. Í dag grætur fólk því það kemst ekki á feisbúkk í klukkutímahléinu sínu.
Mitt ráð til ykkar: Takið með ykkur góða bók í skólann - skiljið tölvurnar eftir heima. Þannig skiljið þið við menntaskólann hæfari einstaklingar en ella.
Mér leikur hugur á að vita hvernig þessum málum er háttað í eina alvörumenntaskólanum í dag. Getur einhver sagt mér það? Tíðkast það að hver og einn nemandi mæti með eigin tölvu í farteskinu og hangi á feisbúkk, jafnt í kennslustundum sem frímínútum?
Allt er farið til andskotans,
ég á mér get ei setið.
Brenglað hefur börnum lands
bölvað Internetið.