Ég hef verið að lesa respons við þráðum og greinum og bloggum hérna á netinu í dag og tók frekar vel eftir því að fæstir virðast sjá ‘skrílshliðina á málinu’.


Komum með örfá facts og pælingar:

Kreppan er að völdum yfirvalds og bankastjórnar, við vitum það. Hvort þarna var heildin að störfum eða nokkrir siðblindir og peningagráðugir apar er svo önnur spurning.

Fundað var 16 laugardaga í röð án árangurs. Þessir hundrað dagar sem stjórnin tók sér í hönd til að “finna lausn” fæddu ekkert af sér nema atvinnuleysi landsmanna og magasár af stressi og bið eftir betri tímum. Á endanum birtist sú yfirlýsing í blöðunum; “við vissum ekki að þetta væri svona slæmt”

Höfum í huga að á Íslandinu litla ríkir lýðræði, þ.e., lýðurinn ræður. Við kjósum okkur menn til að stjórna heildinni. Þessi stjórn er in fact og hefur sýnt að hún er vanhæf og spillt.

Með lýðræðislega hugtakinu er átt við (again), að lýðurinn, þjóðin, samfélagið sem heild ræður stjórnarskipulaginu. Þegar 6000 manns safnast saman á Austurvelli, soltin í frelsi frá kapítalískri kúgun og spilltum höfðum lýðræðislegs samfélags, en enginn ansar og enginn hlustar, þá verður reiðin yfirþyrmandi.

Stór hluti þjóðarinnar sveltur. Atvinnuleysið er ekki eins sýnilegt og það ætti að vera en mörghundruð fjölskyldur sitja í skuldasúpu, auralaus og atvinnulaus og margir búnir að missa allt. Margir segja að þau hafi komið sér sjálf í þessa súpu með að ná sér í eitt stykki verðtryggt lán hér og kannski tvö myntkörfulán þarna, en þegar bankastarfsmenn fullvissa okkur um að ekkert sé að óttast og bankinn lofar öllu fögru þá sé ég ekki beint hver sökudólgurinn er. Voru það ekki bankarnir sem stóðu á skólagólfum menntaskólanna og buðu 15 og 16 ára unglingum að skoða bílalán? Hversu heilbrigt er að 18 ára einstaklingur taki sér lán upp á milljón, þegar samfélagið telur hann ekki einu sinni geta tekið ábyrgð á eigin drykkju fyrr en um tvítugt? 50/50 ábyrgð? Ég veit það ekki.

Mótmælin voru reynd friðsamlega. Fólk sendi bréf, reyndi fundi og stóð saman í þögn móti alþingishúsinu án þess að fá nein svör. Þrátt fyrir friðsemdina ákvað yfirvaldið að afmarka handa okkur, lýðnum sem á landið og byggir, svæði þar sem mátti mótmæla. Það var nógu langt í burtu til að hrópin myndu ekki trufla þau. Þau vildu ekki heyra.
En hundruðir sveltandi foreldra og barna, atvinnulausir og eignalausir, vinir þeirra og fjölskyldur, meira að segja lögreglan utan vinnu ákvað að þetta skildi ekki viðgangast - lýðræði skildi fram ganga og mættu samt á sinn stað fyrir framan alþingishúsið.

Á endanum stóð fólk upp á móti spilltum kapítalismanum sem við höfum umborið svo lengi og það lét sér blæða, lét sig brotna, lét gasa sig og kasta sprengjum í sig, það lét handtaka sig, berja sig og kæra sig. Hvað skéði? Það heyrðist til okkar, loksins. Ríkisstjórnin féll og fékk krabbamein í talandann um leið. Kaldhæðnislegt.


Sýnir þetta okkur ekki að oft þarf að beita hörðu á móti hörðu?

Það að misþyrma lögreglunni var alls ekki sniðugt, og fæstum finnst það. En það að kasta eggjum og skyri, berja á trommur, gefast ekki upp og standa heilu næturnar tel ég merki um dugnað. Já, það er dugnaður að skíta út alþingishúsið, það sýndi vanvirðingu okkar fyrir yfirvaldinu á mjög táknrænann hátt. Gangstéttarhellurnar voru rugl, múgæsingurinn var gríðarlegur og nokkrir útvaldir vinir lögreglunnar tóku af skarið og ákváðu að skemma fyrir heildinni, svoleiðis gerist alltaf.

En nú stöndum við á tímamótum. Unga fólkið ætti að vera þakklátt mótmælendum og fullorðna fólkið ekki síður. Það er þeim að þakka að á okkur var hlustað, að þið og við verðum ekki kúguð lengur eða notuð sem strengjabrúður. Það er mótmælendum að þakka að meiri líkur eru á bættum kjörum fyrir afkomendur ykkar, að þær skuldir sem eru færðar á herðar ófæddum Íslendingum séu fjarlægðar og að nýtt og betra samfélag verði byggt. Lýðræðið fékk fram að ganga og nú höfum við tækifæri til að drekkja kúgun og spillingu, feluleikjum og rífa niður kapítalismann. Við getum byggt betra land.
Fæstir fatta hverskonar tíma við erum að upplifa. Njótið vel, þetta eru tímamót sem þið munið seint gleyma.