(Ég veit að þetta á kannski heima meira inná /skóli en þetta áhugamál er miklu meira skoðað og úr því að ég þarf nauðsynlega álit ykkur á þessu máli þá ákvað ég að setja þetta hingað í staðinn)
Málið er að ég er á fyrsta ári í Verzlunarskóla Íslands og ég er ekki að fíla mig þar. Félagslífið er í sjálfu sér mjög fínt og mér finnst krakkarnir í bekknum mínum og í skólanum almennt mjög fínir en það er námið sem er að setja strik í reikninginn. Að mínu mati er allt of mikill heimalærdómur og ég á í erfiðleikum með að komast yfir hann þar sem ég á oft erfitt með að setjast niður og einbeita mér að náminu þegar heim er komið. Auk þess er ég ósáttur með marga kennara og finnst mér margir þeirra í einu orði bara snobbaðir! þeir líta hornauga á fólk eins og mig sem ná kannski ekki jafn miklu efni inn í tímum og koma svo stundum ólærðir í tíma. Margir hverjir eru líka bara almennt dónalegir og ósanngjarnir og lélegir kennarar.
Ég talaði við móður mína fyrir stuttu og sagði henni frá aðstæðunum sem ég væri í og hún skildi þær vel. Hins vegar vildi hún heldur að ég kláraði árið og myndi svo skipta um skóla ef ég væri ennþá á því að skipta að vetri loknum. Ég er ekki á sama máli því ég er viss um að ég eigi eftir að falla í einhverjum fögum um jólin (stærðfræði og danska koma sterklega til greina) og því verður auka álag sett á mig eftir áramót þar sem ég þarf að taka þau fög sem ég féll í aftur í fjarnámi.
Ég skil sjónarmið móður minnar enda er hún búin að borga fúlgur fjár fyrir skólaárið (allt árið ekki bara önnina) og einnig búin að kaupa bækur handa mér fyrir báðar annir.
Mitt sjónarmið er hins vegar þannig að ég veit að ef/þegar ég fell um jólin og þurfi þá að taka auka fög næstu önn muni ég kolfalla að vori og því þurfi ég að taka mikið af áföngum aftur í öðrum skóla (þá með áfangakerfi býst ég við.)
Ef við förum eitthvað út í skóla sem ég myndi hafa áhuga á þá koma Borgó og MK sterklega til greina þar sem ég þekki marga í báðum skólum og hef sterkar heimildir fyrir því að þar séu almennt góðir og sanngjarnir kennarar og þar sé ekki nærrum því jafn mikið að læra heima og því yrði auðveldara fyrir mig að komast yfir námið.
Úr því að móðir mín vill ekki láta undan því að ég fái að skipta um skóla um áramótin kom upp í huga mér kostur sem væri sá að ég myndi falla viljandi í 4 fögum eða fleirum og því vera vikið úr skóla. Bæði borgó og MK myndu taka mig inn þrátt fyrir fallið því það er áfangakerfi í þeim báðum og ég er með góða mætingaeinkun. Þetta er hættulegt og ég efast um að neinn ykkar mæli með þessu en mig langar bara svona mikið að skipta að ég er tilbúinn til þess að taka einhver fög aftur.
Haldiði að mamma mín verði fyrir vonbrigðum ef ég geri þetta eða haldiði að hún muni skilja þetta?
Segið mér endilega hvað þið mynduð gera í mínum sporum og reynið að sjá málið frá öllum hliðum. (engin skítköst)
Fyrirfram þakkir
-Atli
END OF LINE