cre:
Nei, setningin þín er ekki málfræðilega rétt útgáfa af setningu viðkomandi.
Það er ekki sama merking í setningunum a) Ég er alltaf að… (sem hann skrifaði), og b) Ég hef… (sem þú stingur upp á).
Dæmi: a) Ég er alltaf að taka til, b) Ég hef tekið til.
Síðari setningin hefur annað horf (horf er fyrirbæri sem ekki er kennt vel í íslenskri málfræði); Hvernig horfir verknaðurinn við sögninni? Í a) er um að ræða ástand sem stendur yfir en í b) er um að ræða aflokinn verknað. Þetta breytir merkingunni. Samt er tíðarmerkingin nánast sú sama (nútíð (ég er…) vs. núliðin tíð (Ég hef (núna) tekið til)). Það fer þó betur að nota einfalda nútíð í stað “ég er að..” orðflækjunnar. En núliðin tíð getur ekki komið í staðinn án þess að breyta merkingunni.
Svo má maðurinn segja að fólk geri eitthvað alltaf en ekki bara oft. Það er ekkert málfræðilega rangt við það að segja “alltaf”. Þetta er ef til vill ekki falleg íslenska en leiðrétt útgáfa væri frekar: “…að fólk er sífellt að leiðrétta…”. Þá helst sama merking, en hún glatast við það að setja orðið “oft” inn í stað “alltaf”.
Þetta er ekki leiðrétt útgáfa af setningunni vegna þess að þú ert að breyta merkingunni. Setningin þín er vissulega fallegri íslenska. En hún er ekki málfræðilega rétta útgáfan af setningunni sem þessi hugi ætlaði að segja, heldur önnur setning með aðra merkingu.
Auk þess ljáðist þér að færa eitt atriði til betri vegar. Þegar tveir eiga hlut að máli er sagt “hvor annan”, “hvor aðra” eða “hvort annað”. En orðið “fólk” í setningunni vísar varla til tveggja einstaklinga. Og þegar fleiri en tveir eiga hlut að máli ber að segja “hver annan”, “hver aðra”, “hvert annað”.
Dæmi: Jón og Gunna elska hvort annað. Dagbjört, Davíð og Anna ásaka hvert annað.
Leiðrétt útgáfa setningarinnar væri því frekar á þessa leið:
“Ég tek ósjaldan eftir því/Ég verð hvað eftir annað var við það að fólk er sífellt að leiðrétta hvert annað, og ég tek sjaldan eftir öðru en svörum um villur í texta.”
<br><br>__________________________
Aut tace aut loquere meliora silentio.
___________________________________