okay, það sem ég hef lesið hér segir mér mikið um fáfræðslu fólks um sjúkdóminn þunglyndi.. sem er btw eitthvað sem einstaklingur þarf ekki að fæðast með x)..
njótiði og hættiði að tala um eitthvað sem þið vitið of lítið um :)
Leiði - þunglyndi
Flestir hafa fundið til leiða eða til þess að verða miður sín t.d. vegna vonbrigða, mikils álags eða láts ástvinar. Slík viðbrögð teljast eðlileg þegar einstaklingur ræður við þau þannig að þau hafa ekki teljandi áhrif á störf hans eða hegðun.
Ef viðbrögðin vara lengi eða þyngjast og hann verður lítt fær um að sinna störfum lengur en 2 vikur er líklegt að um þunglyndi sé að ræða og því eðlilegt að leita til læknis.
Stundum virðist svo sem einstaklingur verði miður sín án sérstaks tilefnis. Eru þá fundnar til ýmsar skýringar, svo sem mikil þreyta eða að einstaklingur sé haldinn líkamlegum sjúkdómum. Almennt gengur illa að ná tökum á slíku ástandi, án meðferðar , því oft er um að ræða einkenni þunglyndis, en þunglyndi hefur tilhneigingu til að þyngjast ef það er ekki meðhöndlað.
Þegar einkennin skerða líf einstaklingsins og breyta háttum hans leikur lítill vafi á því að um þunglyndi er að ræða eins og eftirfarandi dæmi sýna:
Kristín er fyrirmyndar móðir og hamingjusöm eiginkona. Hún vann hálfan daginn utan heimilis og var ánægð bæði með starf og starfsfélaga þegar hún morgun nokkurn ætlaði ekki að hafa sig fram úr rúminu. Hún gat ekki sinnt störfum sínum, átti erfitt með að hugsa og tala, fann ekki til ánægju eða gleði og forðaðist jafnvel samskipti við börn sín og maka. Ástandið breyttist lítið og hún átti erfitt með svefn. Ekkert hafði gerst í hennar lífi er gat skýrt ástand þetta. Maki hennar varð óþolinmóður, börnin urðu ráðvillt, þeim fannst móðir þeirra vera þreytt á þeim og vilja vera laus við þau. Kristínu fannst allt vonlaust, lífið einskis virði og hún hafði það á tilfinningunni að ekki væru til nein úrræði.
Petrínu hafði ætíð fundist tilveran vera ósköp tilbreytingalaus og leiðinleg. Hún hafði hvorki þrek né löngun til að ljúka skólanámi þrátt fyrir eðlilega greind. Oft skipti hún um starf ýmist vegna fjarvistar eða áhugaleysis. Henni var ekki falin nein ábyrgð. Hún skildi við makann eftir fremur stuttan hjúskap og átti þá 2 börn. Afkoma hennar var erfið, tekjur litlar og ábyrgð mikil. Hún fann til vaxandi sektarkenndar og vonleysis, fór að borða meira en venjulega, sofa lengur og varð óvinnufær.
Sveinn varð í vaxandi mæli ósáttur við líf sitt. Hann fann til aukins kvíða og þreytu bæði í starfi sínu og hjúskap. Honum fannst hann vera veiddur í gildru, fann fá úrræði, komst lítið áfram og leit fremur döprum augum á framtíðina. Hann fann til vanmáttar og skammaðist sín fyrir tilfinningar sínar, forðaðist að ræða við aðra um vandræði sín. Honum leið betur þegar hann neytti áfengis og jók neyslu þess.
Pétur varð stundum alvarlega þunglyndur. Eftir þunglyndisköstin átti hann það til að vera með oflæti. Honum fannst allt auðvelt, eyddi peningum, ferðaðist mikið, talaði mikið, svaf lítið og var mikið út á við.
Pálína var 80 ára gömul. Hún var skýr, glaðvær kona er sinnti sínu heimili þangað til hún missti maka sinn fyrir 2 árum. Stuttu síðar lést systir hennar og upp úr því fór hún að verða gleymin, vilja sitja eða liggja og stara tómlega út í loftið. Hún talaði hægt og svaraði seinlega, hreyfingar urðu hægar svo og önnur viðbrögð. Börn hennar urðu áhyggjufull og töldu hana vera með einkenni elliglapa og að tilveru hennar sem sjálfstætt búandi konu væri lokið.
Allir þeir 5 einstaklingar, sem lýst hefur verið hér að ofan, þjáðust af mismunandi tegundum þunglyndis. Þau voru hvorki löt, kvartsár, einkennileg eða elliær. Þau voru veik og þurftu hjálpar við, hvert á sinn hátt.
Hver eru einkenni þunglyndis?
Einkenni þunglyndis ná til alls líkamans, bæði andlega og líkamlega. Auk þunglyndis geta einstaklingar orðið örir eða með oflæti. Það gerist þó ekki oft. Ef einstaklingur líður af meir en þrem eftirtalinna geðrænu einkenna þunglyndis og meir en einu líkamlegu, er mjög líklegt að hann hafi þunglyndi. Ef hann er með minnst þrjú einkenni oflætis er mjög líklegt að hann hafi oflæti.
Helstu geðrænu einkenni þunglyndis eru:
o Depurð allt verður dapurt og þungt.
o Vonleysi um bata og því tilgangslaust að leita hjálpar.
o Hjálparleysi tilfinning fyrir vangetu eða að vera ósjálfbjarga og fá ekki stuðning.
o Kvíði fyrir einhverju, oft óraunhæfu, eða kvíði án skýringar.
o Óróleiki eða eirðarleysi án sýnilegs tilefnis annars en innri vanlíðan.
o Ánægja og áhugi dvín eða hverfur alveg.
o Svefn breytist stundum þannig að erfitt verður að sofna, stundum vaknað oft á nóttu, stundum vaknað 2-3 klukkutímum fyrr að morgni en venjulega, stundum of mikill svefn.
o Kynlíf minnkar, stundum ekkert.
o Áhugamál dvína og félagsleg einangrun vex.
o Matarlyst oftast minnkandi, stundum aukin.
o Þreyta eða slen verða áberandi og oft tekin sem teikn um alvarlegan líkamssjúkdóm.
o Tregða sem kemur m.a. fram í hægum viðbrögðum, hreyfingum, tali og hugsun.
o Vanmáttarkennd eða sektarkennd aðallega í formi þess að vera einskis nýtur, óþarfur, erfiður fjölskyldu sinni, jafnvel skaðlegur og syndugur.
o Hugsun verður hægari, hugarflug fátæklegt, oft bundið við sérstakar hugsanir. Ákvarðanataka verður meir efablandin og óörugg.
o Tómleiki með tilfinningu fyrir því að vera dofinn eða dauður í hugsun, tómur.
o Sjálfsvígshugsanir byrja oftast með þeirri tilfinningu að verðskulda að deyja eða að dauðinn einn lini þjáningarnar.
Helstu líkamlegu einkenni þunglyndis eru:
Höfuðverkir, magaverkir, verkir almennt, tregar hægðir og svitaköst eru meðal algengustu líkamseinkenna. Verkirnir batna almennt lítið eða ekkert þó tekin séu verkjastillandi lyf.
Helstu einkenni oflætis eru:
o Ofvirkni er sífellt að, gerir margt, unir sér ekki hvíldar.
o Óþolinmæði þannig að allt verður að gerast strax og vinnast fljótt. Úthald mjög lítið.
o Svefnleysi svefnþörf er minnkuð.
o Málæði stundum talað stanslaust og gripið fram í.
o Stórmennskukennd að vera yfir alla hafinn, vita allt og geta allt.
o Sundurleysi í tali og gjörðum. Tilhneiging til að vaða úr einu í annað.
o Marghuga hefur mörg járn í eldinum hverju sinni en oft verður lítið um framkvæmdir. Aukin orka virðist seint eða ekki þreytast.
o Dómgreind skerðist. Er of viss í sinni sök og gefur sér lítinn tíma til hugsunar.
o Innsæið er skert, einkum sjúkdómsinnsæi.
o Trufluð samskipti vegna þess að aðrir þreytast á ástandinu og forðast samskipti.
o Hreyfing er á sífelldu iði oftast án markvissra aðgerða.
o Kynlíf meira en áður.
Almennt sýnir fólk einkennum oflætis mun minni þolinmæði og skilning en einkennum þunglyndis. Gjarnan er einstaklingi með þunglyndi sýnd samúð en gert grín að eða ámælt þeim er verður oflátur. Sjúklingur er líður af oflæti er oft svo sáttur við einkenni sín, að hann óskar ekki eftir meðferð. Það er því oft ekki fyrr en eftir að oflætinu lýkur sem einstaklingur gerir sér grein fyrir aðgerðum sínum.
Flokkun þunglyndis
Sameiginleg alþjóðleg læknisfræðileg flokkun er flókin fyrir leikmenn. Tilgangur með slíkri flokkun er að læknar í ýmsum löndum greini ýmsar tegundir þunglyndis á sama hátt. Þannig geta þeir betur nýtt sér reynslu hvers annars t.d. um tíðni, meðferð, orsakir og horfur.
Kristín vaknaði einn morguninn með geðlægð án sýnilegra orsaka. Hún hafði aldrei áður fundið til slíkra einkenna. Án meðferðar hefðu einkenni hennar getað varað allt upp í 2 ár. Sumir fá þunglyndi aðeins einu sinni um ævina, aðrir oftar stundum með nokkurra ára millibili. Hún líður af innlægu þunglyndi.
Petrína lenti í þrengingum í lífi sínu og viðkvæmu uppgjöri. Hún hafði lengst af ævinnar verið bæði viðkvæm og leið, án þess að leita á því bót. Hún réði ekki við breytta tilveru. Einmanakennd, fjárhagsvandræði, áhyggjur út af börnum, jafnvel óvissa um búsetu varð henni ofviða og þunglyndið tók hana tökum. Hún hefur viðkvæman persónuleika og líður af þunglyndi vegna of mikils álags.
Sveinn var einnig ósáttur við tilveru sína, en honum leið betur undir áhrifum víns. Hann fór að neyta víns í óhófi. Sveinn hefur viðkvæman persónuleika og líður af vaxandi drykkjusýki sem er afleiðing þunglyndis.
Pétur leið af geðsjúkdómi þar sem hann, auk þunglyndis, fékk einnig oflæti. Hann fékk oflæti þegar þunglyndi lauk. Honum leið þá vel, allt lék í lyndi, hann gat allt og óskaði því ekki eftir neinni meðferð. Hann er haldinn sveiflusýki þ.e.a.s. fær þunglyndi svo oflæti en verður góður á milli.
Pálína varð ekkja 78 ára og sá fram á einmanakennd og öryggisleysi. Félagslegur stuðningur var ófullkominn, úrlausnir helst fólgnar í því að yfirgefa heimilið og fara á stofnun. Hún er haldin þunglyndi vegna of mikils álags og hás aldurs, sem að miklu leyti mótar sjúkdómsmyndina.
Orsakir þunglyndis
Í fyrsta lagi má rekja þunglyndi til ytri orsaka.
Í öðru lagi má rekja orsakir þunglyndis til líkamlegra sjúkdóma t.d. skjaldkirtilssjúkdóma og vírusasjúkdóma. Einnig getur þunglyndi komið fram við fæðingar. Ein af hverjum tíu konum fá þunglyndi eftir fæðingu.
Í þriðja lagi má rekja orsakir þunglyndis til notkunar lyfja t.d. lyfja við háþrýstingi, hormónalyfja o.s.frv.
Í fjórða lagi má rekja orsakir þunglyndis til viðkvæms persónuleika.
Í fimmta lagi finnast engar ytri orsakir. Þunglyndið er innlægt. Svo virðist sem það gæti byrjað jafnvel á hamingjustund í lífi einstaklings.
Þegar um er að ræða innlægt þunglyndi þá er talið að veilan liggi í erfðaþáttum einstaklingsins. Reyndar hafa rannsóknir sýnt að ef einkenni innlægs þunglyndis koma fram í öðrum einstaklingi eineggja tvíbura þá eru allt að 70% líkur til þess að hinn tvíburinn fái svipuð einkenni, jafnvel þótt þeir séu aldir upp á ólíkum heimilum. Hins vegar er um óverulega aukningu að ræða hjá börnum foreldris, er hefur fengið innlægt þunglyndi og aðeins algengar hjá börnum foreldra er báðir hafa fengið þunglyndi. Stundum virðist svo sem þunglyndi komi fram í ættlið fram af ættlið og stundum án þess að vitað sé til um að sjúkdómurinn finnist í ætt.
Fyrir u.þ.b. 35 árum var farið að veita því eftirtekt að sum lyf gátu haft áhrif á geðrænt ástand. Frekari rannsóknir leiddu til þeirrar vitneskju að með þunglyndi fylgir röskun á starfsemi heila. Starfsemi boðbera, en það eru efni er flytja boð á milli fruma, er skert. Tveir flokkar boðbera er mest tengjast þunglyndi eru serotonin og norepinephrine. Álitið er að skortur á serotonini geti orsakað m.a. svefntruflanir, pirring og kvíða. Skortur á norepinephrine getur leitt til slappleika, aðgerðarleysis og vonleysis.
Sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir
Stundum fá einstaklingar, er líða af þunglyndi, þá tilfinningu að dauðinn einn geti leyst þá undan þjáningum. Nauðsynlegt er að taka alvarlega slíkri tilfinningu og hafa samráð við lækni um viðbrögð. Strax og þunglyndi léttir hverfur þessi tilfinning.
Sjálfsvíg eru alvarlegustu afleiðingar þunglyndis. Um helmingur allra þeirra einstaklinga er fremja sjálfsvíg, líða af þunglyndi. Talið er að um 10% þeirra er þjást af einkennum þunglyndis fremji sjálfsvíg.
Hvenær á að leita læknis?
Við leiða er ekki nauðsynlegt að leita til læknis en læknisfræðileg meðferð er nauðsynleg þegar um þunglyndi er að ræða. Þunglyndi er sárt e.t.v. versti sársauki sem manninn getur hrjáð. Oft eru einkennin væg í fyrstu og því vill verða bið á því að leitað sé til læknis. Árangur af meðferð fæst yfirleitt ekki fyrr en eftir 10-20 daga. Því er nauðsynlegt að hefja meðferð sem fyrst.
Meðferð
Meðferð byggist aðallega á því hversu mikið þunglyndið er afleiðing af ytri áhrifum eða innlægt. Oft fara þó saman einhver ytri áreiti eða álag og innlæg viðbrögð. Meðferð er alltaf einstaklingsbundin. Hún fer m.a. eftir einkennum, skapgerð, viðbrögðum og getu ásamt stuðningi aðstandenda og þörf á innlögn á sjúkrahús. Þunglyndi getur tekið sig upp aftur. Verði stutt á milli, t.d. minna en eitt ár, þá er rétt að taka lyf til fyrirbyggingar.
Helstu framfarir í geðlækningum hafa orðið í meðferð þunglyndis. Um 80-90% fá bata. Meðferðinni má skipta í 3 meginflokka:
Lyfjameðferð byggist aðallega á því að auka eða breyta starfsemi áðurnefndra tveggja boðbera þ.e.a.s. serotonins og norepinephrines og beina þeim í auknum mæli að næstu frumu og örva þannig flutning á vissum boðum.
Þríhringalyfin hindra endurupptöku boðbera. Lyf í þessum lyfjaflokki hafa að sumu leyti ólíkar og einstaklingsbundnar verkanir þannig að eitt þeirra getur því verkað betur en annað. Þunglyndiseinkenni sjúklings gefa ekki alltaf öruggar vísbendingar um hvaða lyf væru líklegust til að gefa bestan árangur en þríhringalyfin virðast verka best þegar um innlægt þunglyndi er að ræða og þegar mest ber á slappleika, hjálparleysi, vonleysi, og lystarleysi.
Aukaverkanir eru óþægilegar og geta leitt til þess að sjúklingar fylgja ekki læknisráði. Flestar aukaverkanir, svo sem munnþurrkur, svitaköst, hægðatregða og þreyta, koma fram innan 3ja daga. Einkenni þessi dvína svo síðar einkum eftir 14. til 15. dag. Stundum gætir sérstakrar spennu og óróleika frá 3. degi til 8. dags.
Árangur fæst misjafnlega fljótt, fer að nokkru eftir tegund og skömmtum. Venjulega gætir einhvers bata í kringum 10. dag og fulls bata innan 25 daga.
MAO lyfin draga úr niðurbroti boðbera. Þau verka einkum þar sem mikið ber á aukinni svefnþörf, kvíða og þráhyggju.
Aukaverkanir eru sjaldgæfar hjá nýjustu lyfjum þessa lyfjaflokks. Verkun kemur fram á 10. til 12. degi.
Lithium er venjulega notað til að fyrirbyggja oflæti og stundum þunglyndi því samfara. Lyfjaskammtar eru gefnir eftir mælingum á styrkleika efnisins í blóði. Þarf því að fylgjast með þéttni lyfsins í blóði.
Aukaverkanir svo sem titringur eða ógleði eru fremur óalgengar ef blóðþéttni er eðlileg.
Árangur er allt að því 70%.
Nýir lyfjaflokkar hafa komið á markaðinn nú sl. 5 ár og verka þau oft gegn þunglyndi með öðrum hætti en fyrri lyf. Almennt eru þessi lyf árangursrík og með vægar aukaverkanir.
Ef leitað er til annarra lækna er nauðsynlegt að láta þá vita um lyfjanotkun svo að ekki verði bætt við öðrum lyfjum nema með vitund þeirra.
Róandi lyf svo sem Diazepam verka ekki á þunglyndi.
Samtalsmeðferð er margskonar en megin tilgangur hennar er fólginn í því að styðja sjúkling, auka innsæi hans og kalla fram styrkari viðbrögð. Meðferðin er margvísleg og fer eftir ástandi sjúklings hverju sinni. Í sumum tilfellum getur samtalsmeðferð komið í stað lyfja. Best hefur þó reynst að beita bæði lyfja- og samtalsmeðferð. Raflækning er almennt notuð ef árangur fæst ekki af lyfjum eða ef sjúklingur þolir ekki lyfin. Meðal kosta þess að taka lyf er að þau er unnt að taka hvar sem er og nota svo til fyrirbyggingar eins lengi og þörf krefur.
Raflækningar eru hins vegar framkvæmdar á sjúkrahúsi. Sjúklingar eru svæfðir og fá vöðvaslakandi efni. Rafskaut eru lögð á enni og vægur straumur gefinn. Endurtaka þarf meðferðina oftast 4-6 sinnum áður en árangur fæst. Helstu aukaverkanir við raflækningar eru fólgnar í fremur skammvinnu minnistapi er þó lagast fljótlega eftir að meðferð er lokið.
Kristín þurfti fyrst og fremst á lyfjameðferð að halda. Lyf gegn þunglyndi hjálpuðu henni þannig að hún fékk góðan bata eftir u.þ.b. 20 daga meðferð. Þar sem ekki var vitað hvort eða hvenær hún fengi aftur þunglyndi var lyfjameðferð hætt nokkrum mánuðum eftir að bati fékkst. Fljótlega eftir að hún fékk bata voru lyfjaskammtar minnkaðir um helming. Jafnframt fékk Kristín og maðurinn hennar upplýsingar um sjúkdóminn og leiðbeiningar um viðbrögð ef hann kæmi aftur.
Petrína hefði þurft að fá samtalsmeðferð þegar á unglingsaldri til þess að hjálpa henni til að skilja sjálfan sig og sjá hluti jákvæðar. Líklega hefði það breytt lífi hennar og hún ekki lent í skilnaði. A.m.k. hefði hún betur getað mætt auknu álagi. Lyf hjálpuðu henni út úr þunglyndi en hún hélt áfram með samtalsmeðferð.
Sveinn átti að leita aðstoðar er hann fann sig læstan í lífsmunstri er hann undi ekki við. Sjálfsmeðferð með aðstoð víns leiddi hann út í ógöngur. Samtalsmeðferð með það markmið að auka innsæi hans í sjálfsgetu, skilning á eðli vandamáls og úrlausnum hefði getað leyst hann úr vanda sínum og þannig fyrirbyggt að hann yrði hrjáður af einkennum taugaveiklunar og þunglyndis og síðar einnig af einkennum ofdrykkju. Hann fór í meðferð við áfengissýki þar sem sérstök áhersla var lögð á samtalsmeðferð.
Pétur fór í lyfjameðferð vegna oflætis. Þar sem fyrir lágu upplýsingar um að hann hefði stuttu áður, eða fyrir u.þ.b. ári, fengið þunglyndi og vægt oflæti, fékk hann fyrirbyggjandi lyfjameðferð sem hann verður að taka um langan tíma. Ef hann hættir að neyta lyfjanna verður hann óvarinn fyrir sjúkdómi sínum sem þá væntanlega tekur sig upp aftur.
Pálína þurfti, er hún varð ein, að komast í félagsskap við jafnaldra sína. Þar gat hún bæði þegið og veitt stuðning. Hún fékk heimilisaðstoð og viðeigandi meðferð, þar með talin lyf gegn þunglyndi, og náði sér.
Hver eru helstu viðbrögð við þunglyndi?
Viðbrögð eru margvísleg. Viðbrögð maka eða nánustu aðstandenda fara í fyrstu mikið eftir einkennum sjúklings. Oft er tilhneiging til að líta svo á að hann hafi misst áhuga ekki síst þegar um hjónaband er að ræða. Viðbrögð aðstandenda verða gjarnan sjálfsásakanir eða gremja. Oft mætir þó sjúklingur skilningi einkum þegar einkennin verða þung og augljós. Þegar orsakir eru margþættar og einkennin verða áberandi má t.d. heyra “hún hefur rétt á því að vera þunglynd, hún hefur gengið í gegnum svo margt”. Með slíkum skýringum er gjarnan gengið fram hjá þeirri staðreynd að viðkomandi einstaklingur réði ekki lengur við vandamál sín og þurfti því aðstoðar við.