Já ókei, fyrst þú vilt það ekki þá skal ég gefa þér nokkur alvöru ráð.
1. Vertu fyndinn/áhugaverður strax í fyrstu tveimur setningunum. Þetta fær fólk til að vilja hlusta á restina af ræðunni, þú grípur salinn miklu betur.
2. Ekki vera taugaóstyrkur (en ef þú getur ekki forðast það, reyndu þá að láta bera sem minnst á því), og reyndu eins og þú getur að hemja alla kæki. Vinsælir kækir eru t.d. að fara með hendina í hárið endurtekið, að dúa milli fóta (stattu beinn í baki með jafn mikla þyngd á báðum fótum, ekki halla þér á neitt, sérstaklega ekki ræðupontuna) og ýmis konar handahreyfingar.
Eitt ráð sem ég veit að virkar fyrir marga er að vera með penna þegar þú flytur ræðuna. Haltu á pennanum með báðum höndum og ekki fara með þær neitt annað, nema þú sért búinn að plana handahreyfingu í sambandi við það sem þú ert að segja einmitt þá. Penninn hjálpar stundum við að halda höndunum kyrrum.
3. Forðastu allt hik. Hikorð eins og “uuh” “umm” “ömm” og fleira eru hlutir sem þú vilt forðast eins og heitan eldinn. Þau gera þig leiðinlegan og láta þig virka taugaóstyrkan, og þá nennir fólk ekki að hlusta á þig.
Hins vegar er gott að nota áhersluþagnir. Þær eru vanmetið tól og rétt notkun á þeim getur bætt ræðu um heilan helling.
4. Reyndu að vera eðlilegur og afslappaður. Brostu þegar það á við. Í svona tækifærisræðu er best að vera brosandi þegar þú stígur í pontu. Taktu þér smá tíma til undirbúnings þegar þú ert kominn þangað. Lagaðu blöðin þín til og dragðu djúpt andann.
5. Mjög mikilvægt er að kunna ræðuna. Það er ekkert leiðinlegra en að hlusta á ræðu þar sem flytjandi er alltaf að stoppa til að lesa á blaðið og/eða lítur varla upp af því. Skrifaðu ræðuna orð fyrir orð með 14 punkta letri með tvöföldu línubili, þetta gerir hana miklu auðveldari aflestrar.
Nú dettur mér fátt annað í hug svona í fljótu bragði, en spurðu endilega ef þú ert forvitinn um eitthvað, þar sem ég tel mig vita ágætis magn um hvernig skal flytja ræðu.
Bætt við 31. maí 2008 - 19:05
Og já, þú mátt ekki gleyma að ávarpa salinn. “Kæru vinir” eða eitthvað svoleiðis.