Ég er líka orðinn svolítið þreyttur á því. Málið er þó að það var Smáís sem hrundi af stað þessu væl-fest. Voru tónlistarmenn ráfandi um göturnar, hungurmorða og gerðu sér bæli í pappakassa í húsasundi í miðbænum? Nei. Voru plötufyrirtækin í bullandi mínus og á barmi gjaldþrots? Nei. Var þetta gríðarlegt þjóðfélagsvandamál? Nei.
Ein helstu rök Snæbjörns er eitthvað ,,tap sem nemur hundruðum milljóna“ sem ég botna alls ekki í hvernig er reiknað út. Ég man þegar ég var í grunnskóla og það var videokvöld í skólanum. Allir bekkirnir í mínum árgangi voru saman á þessu videokvöldi og minnir mig að við höfum séð Bruce Almighty, þá nýlega mynd. Einn kennarinn hefur eflaust átt spóluna eða leigt hana. Þá hafði hann væntanlega borgað fyrir myndina og peningur runnið í vasa Smáís, búðarinnar þar sem hann keypti spóluna og Universal Pictures sem hefur væntanlega séð um að dreifa ágóðanum í vasa leikara og tækniliðs. Kennarinn var búinn að borga fyrir myndina og allt löglegt, allt í gúddí. Svo kemur hann og ,,dreifir” myndinni til fleiri tuga annarra á videokvöldi endurgjaldslaust. Samkvæmt útreikningum Snæbjörns voru Smáís og höfundarrétthafar þarna að tapa 100-200 þúsund krónum því allir viðstaddir keyptu myndina ekki á dvd á þrjú þúsund kall. Réttir útreikningar?
Kerfið virkar þó niðurhal eigi sér stað. Niðurhal jafngildir ekki tapi. Það er beinlínis heimskulegt að fullyrða það.