Ein með öllu á Akureyri
11.8.2003
Fjölskylduhátíðin “Ein með öllu” verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina. Meðal hljómsveita sem skemmta bæjarbúum og gestum þeirra eru Papar, Í svörtum fötum, Írafár, Land og synir, Gis & The Big City Band, Douglas Wilson, XXX-Rottweiler, Bent & 7Berg, Brain Police, Úlfarnir, Hundur í óskilum, og sjálfir Stuðmenn verða einnig á ferli.
Þetta er þriðja árið í röð sem hátíðin er haldin undir sömu formerkjum, sem fjölbreytt skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Val á skemmtikröftum, skipulag dagskrár og afþreyingar og öll umgjörð hátíðarinnar miða að því að allir aldurshópar geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Ekki þarf að greiða aðgangseyri þegar komið er til Akureyrar né heldur á Ráðhústorg eða Akureyrarvöll þar sem skemmtidagskrá hátíðarinnar fer fram. Fjölbreytt dagskrá verður á Ráðhústorgi á föstudagskvöld, eftir hádegi á laugardag, laugardagskvöld og eftir hádegi á sunnudag, þar sem blandað verður saman skemmtiatriðum fyrir alla fjölskylduna og tónleikum margra af vinsælustu hjómsveitum landsins. Unglingadansleikur verður í KA-heimilinu á laugardagskvöld og DJ-partý á sunnudagskvöld (aldurstakmark 16 ár). Að sjálfsögðu verða síðan dansleikir og diskótek á skemmtistöðum bæjarins öll kvöldin.
Meðal skemmtikrafta sem fram koma á hátíðinni sjálfri, það er á Ráðhústorgi og/eða Akureyrarvelli eru hljómsveitirnar Papar, Í svörtum fötum, Írafár, Land og synir, Gis & The Big City Band, Douglas Wilson, XXX-Rottweiler, Bent & 7Berg, Brain Police, Úlfarnir og Hundur í óskilum. Þá má nefna atriði úr hinum vinsælu barnaleikritum Benedikt búálfi og Stígvélaða kettinum og Fílinn, Sigurvin Jónsson, fyndnasta mann Íslands. Að auki munu margar áðurnefndra hljómsveita koma fram á skemmtistöðum bæjarins en þar bætast fleiri sveitir og skemmtikraftar í hópinn, þeirra á meðal ekki ómerkari sveit en sjálfir Stuðmenn. Hápunktur hátíðarinnar verður á sunnudagskvöldinu. Hann hefst með grillveislum í hverfum bæjarins en lýkur með skemmtun og flugeldasýningu á Akureyrarvelli.
Auk skipulagðrar dagskrár er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu í tengslum við hátíðina, svo sem leiktæki, klifurvegg, go-kart bíla, siglingar á Pollinum, götuleikhús, ratleik og fleira og er þá ótalið allt það sem Akureyri hefur upp á að bjóða að jafnaði. Má þar nefna fjölbreytt úrval safna og sýningarsala, tónlistarviðburði í tengslum við Listasumar, sumartónleika í Akureyrarkirkju, tónleika og leiksýningu í Hlöðu að Litla-Garði, vatnakross á snjósleðum á Leirutjörn, torfærukeppni á motocross hjólum ofan við bæinn, Dj-veislur í suðurenda Göngugötunnar frá miðvikudagskvöldi fram á sunnudagskvöld, sýningar í kvikmyndahúsum bæjarins, frábærar sundlaugar á Akureyri og í nágrenni, Lystigarðinn og útivistarsvæðið í Kjarnaskógi, frábær veitingahús af öllum stærðum og gerðum, fagra náttúru, skemmtilegt fólk og gott veður! Að auki verða fjölmargar verslanir opnar alla helgina. Í fáum orðum sagt: Akureyri er “Ein með öllu”.
Markmiðið er að halda fjölskylduhátíð af bestu gerð þar sem allir aldurshópar geta fundið fjölbreytta skemmtun og afþreyingu við sitt hæfi. Fólk á öllum aldri er velkomið til bæjarins og að sjálfsögðu er einnig vonast eftir virkri þátttöku bæjarbúa. Ekkert aldurstakmark er á hátíðina en landslögum verður að sjálfsögðu fylgt á Akureyri um verslunarmannahelgina eins og á öðrum tímum árs. Áhersla er lögð á góða samvinnu við bæjaryfirvöld, lögreglu og aðra sem að öryggismálum og eftirliti koma þannig að sem flestir geti skemmt sér sem best á Akureyri þessa helgi.
Næg tjaldsvæði eru á Akureyri. Skátafélagið Klakkur rekur hið landsþekkta tjaldsvæði við Þórunnarstræti og jafnframt eitt glæsilegasta tjaldsvæði landsins sem byggt hefur verið upp að Hömrum í suðurjaðri bæjarins, rétt norðan Kjarnaskógar. Þar er skemmtilegt útivistarsvæði og bátaleiga. Vegna hættu á slysum eru glerflöskur bannaðar á tjaldsvæðunum. Strætisvagnar Akureyrar verða með ferðir milli miðbæjar Akureyrar og tjaldsvæðisins að Hömrum.
Hátíðarhaldarar víða um land hafa jafnan, í samvinnu við fjölmiðla, haldið mjög á lofti fjölda gesta á hverri hátíð fyrir sig. Fjölskylduhátíðin “Ein með öllu” er frábrugðin öðrum hátíðum að því leyti að mjög erfitt er að áætla fjölda gesta þar sem enginn aðgangseyrir er innheimtur við bæjarmörkin eða þegar fólk kemur á Ráðhústorg eða Akureyrarvöll. Því til viðbótar má nefna að fjöldi gesta á tjaldsvæðum bæjarins segir heldur ekki alla söguna vegna þess mikla fjölda hótela, gistiheimila og orlofsíbúða sem eru í bænum, auk þess sem íbúar Akureyrar eru hátt í 16 þúsund og ómögulegt að giska á hve margir þeirra taka þátt í hátíðarhöldunum ásamt gestum sínum með einum eða öðrum hætti. Þegar allt kemur til alls eru það enda gæðin sem Vinir Akureyrar leggja áherslu á í tengslum við hátíðina, óháð fjölda gesta eða þátttakenda.
Markmiðið er að þeir sem koma til Akureyrar um verslunarmannahelgina fari ánægðir heim eftir góða dvöl í bænum og komi aftur að ári, því stefnan er að festa hátíðina í sessi sem fjölskylduhátíð og halda hana árlega. Reynslan undanfarin ár hefur verið góð og má segja að “Ein með öllu” hafi þegar fest sig í sessi sem ein af stóru hátíðíðunum um verslunarmannahelgina og það sem er ekki síður mikilvægt: Ein sú besta og fjölskylduvænsta sem haldin er á landinu.
Fremri kynningarþjónusta hefur skipulagt hátíðina og heldur utanum framkvæmd hennar, fyrir hönd Vina Akureyrar. Hagsmunafélagið Vinir Akureyrar stendur fyrir hátíðinni með fulltingi Akureyrarbæjar og þátttöku fjölmargra fyrirtækja heima og að heiman. Stærstu bakhjarlar hátíðarinnar eru verslanir Baugs á Akureyri; Bónus, Hagkaup og 10-11; Vífilfell, Og Vodafone og Norðurmjólk. Að auki koma fjölmörg fyrirtæki á Akureyri að hátíðinni með ýmsum hætti, einkum veitinga-, þjónustu- og verslunarfyrirtæki.