Ég er að vinna í frystihúsi (humarvinnsla) og eins og flestir vita er mikið af innflytjendum og, á sumrin, námsmönnum í þannig vinnu (ásamt fleirum). Ég er að vinna með alveg fullt af fólki og sem betur fer er þetta mest ágætt fólk. En það eru nokkrir svartir sauðir og þá aðallega í þeim hópum sem ég nefndi - innflytjendur og námsmenn.
Ég skal koma með nokkur dæmi um þetta:
Við vinnum mikið ýmist standandi eða sitjandi. Það er takmarkað magn af stólum svo við eigum að reyna að skiptast á. Það eru sumir sem lærðu ekki að deila dótinu sínu með öðrum á leikskólanum og skilja þetta þess vegna ekki. Yngsti árgangurinn sem er ráðinn eru nýútskrifaðir 10.-bekkingar, margir í þeim árgangi virðast gjarnir á að einoka stólana. Verstir eru samt hópur af Pólverjum sem taka stólana með sér hvert sem þeir fara og jafnvel fela þá meðan þau fara í pásur (ég tek það fram að ég er ekki að tala um “útlendinga” heldur þennan ákveðna hóp af Pólverjum). Ég hef nokkrum sinnum séð þau labba um með stólana sína og jafnvel þegar gömlu konurnar (sem hafa unnið þarna fleiri tugi ára) vilja setjast niður eru þau ekki tilbúin að lána stólinn í 20 mín. Þetta fer alveg hræðilega í taugarnar á mér því við hin þurfum stundum að standa dögum saman meðan “setuliðið” (eins og við köllum þau stundum) kvartar yfir að þurfa að standa í 20 mín.
Þegar vinnan er alveg að verða búin þarf að ganga frá öllu. Það þarf að safna saman ílátum, setja það sem náðist ekki að pakka í frysti, þrífa merkispjöld og fleira. Stundum byrjum við of seint og þá erum við búin nokkrum mínútum seinna. Það eru samt sumir (og sérstaklega “setuliðið”) sem eru ekki tilbúnir að vinna mínútu lengur en til 4 og margir fara 5 mín. í til að vera örugglega komnir heim kl. 4 (og enginn af þeim er að reka heimili svo það er engin afsökun að þurfa að sækja börn á leikskóla eða neitt þannig, þetta eru aðallega yngstu starfsmennirnir). Í dag var ennþá mikið að gera kl. 4 en samt stóðu margir og spjölluðu meðan nokkrir unnu stanslaust. Kl. 4:10 var ennþá eitthvað eftir en við vorum bara 6 eða 7 eftir (af yfir 30) og við unnum til korter yfir. Samt var fólk búið að standa og gera ekki neitt í 10 mín!
Sem betur fer er ég að hætta að vinna þarna. Verð fegin þegar ég losna úr þessu …
Þetta var nöldur sumarsins frá Ægishjálmi.