Já ég á þennan líka fína Sony Ericsson síma sem hefur alltaf reynst mér mjög vel. Nýlega fór hann þó að detta úr sambandi, og ég var hætt að geta notað hann þar sem hann var alltaf sambandslaus. En þar sem hann er ennþá í ábyrgð fór ég með hann í viðgerð, og í Símabúðinni sem ég fór með hann í var mér sagt að þetta tæki viku, þetta væri víst algengur galli í þessarri tegund af símum og að þeir myndu laga hann og senda mér hann svo. Allt í lagi með það.
En svo fékk ég símann aftur sendan til mín á þriðjudaginn, en þá gat ég ekki kveikt á honum. Prófaði að hlaða hann og taka batteríið úr og setja það aftur í. Það hafði aldrei verið vandamál áður að kveikja á honum, það eina sem hafði verið að var sambandsleysið sem er algengur galli í þessum símum. Ég reyndi að hringja á verkstæðið til að fá svör, en þeir svöruðu aldrei símanum. Glatað. Reyndi að hringja í allan fyrradag og í gær, en það gekk ekkert. Prófaði svo að hringja aftur í þjónustuver Símans í gærkvöldi, en það var einhver geðveikt heimsk stelpa sem svaraði þar og hún vissi ekkert hvað hún var að gera. Hún vissi ekki hvort Síminn myndi borga flutningskostnaðinn aftur á verkstæðið, hvort þeir myndu taka ábyrgð á honum í flutningnum og hún vissi bókstaflega ekki neitt og var eins og asni. Tilgangslaust að hafa svona fólk í þjónustuveri.
Í dag náði ég loksins sambandi við verkstæðið og talaði við einhvern gaur. Hann spurði um verkbeiðnisnúmerið mitt og ég gaf honum það upp, en þá segist hann sjá hjá sér að síminn minn sé rakaskemmdur og þessvegna geti ég ekki kveikt á honum. Það var aldrei neitt vandamál, hef aldrei tekið eftir neinum rakaskemmdum og ég gat alltaf kveikt á honum áður en hann fór á þetta skítaverkstæði.
En núna segir hann að ábyrgðin sé orðin ógild vegna einhverra rakaskemmda sem voru ekki þarna áður.
Er ógeðslega pirruð, mig vantar símann minn, en lendi alltaf á einhverju heimsku fólki þarna sem á greinilega ekki að vera í þjónustustörfum. Er búin að skrá mig í Neytendasamtökin þar sem ég ætla að nýta kvörtunarþjónustuna óspart, og ætla að reyna að fá að tala við einhvern yfirmann á verkstæðinu á eftir og kvarta.
Og það sérstakasta er, að vinkona mín var að lenda í nánast því nákvæmlega sama um daginn. Upplognar rakaskemmdir og starfsmenn með kústskaft í rassinum. Frábær þjónusta, ha?