Eftirfarandi frétt var á http://www.visir.is/article/20070427/FRETTIR01/70427065.

Víkingar með atgeir á lofti í bankaráni
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um bankarán víkinga í útibúi Glitnis í Lækjargötu klukkan 13:25 í dag. Þegar fyrsti lögreglubíllinn kom á staðinn kom í ljós að um fíflalæti í skólakrökkum var að ræða. Að sögn lögreglu voru ungmennin að dimmitera og voru víkingaklædd. Þau höfðu ráðist inn í bankann með miklum látum og öskrað að um bankarán væri að ræða.

Hannes Guðmundsson útibússtjóri segir málið háalvarlegt þótt því hafi ætlað að vera grín. Hann segir starfsfólki hafa verið mjög brugðið. Þó hafi sjónarvottar fljótlega séð að um grín var að ræða. Það sama hafi ekki gengt um aðra í húsinu sem einungis heyrðu í fólkinu og var því strax hringt í Neyðarlínuna.

Hannes var í símanum á annarri hæð hússins og heyrði öskrin sjálfur. Hann sleit samtalinu og fór fram. Hann segir lögreglu eiga hrós skilið fyrir skjót viðbrögð en hún kom á staðinn örstuttu eftir að neyðarlínu var gert viðvart.

Hann segir þá sem hlut áttu að máli hafa verið mjög brugðið og áttað sig á alvarleika málsins eftir að lögreglan veitti þeim tiltal.

Bankinn hyggur ekki á frekari aðgerðir gegn ungmennunum.


Þetta fannst mér soldið skondið uppátæki =D