Ég á heima á móti grunnskóla, sér skóla fyrir 4.-7. bekk. Ég hef oft lent í því að mæta einhverjum af krökkunum í skólanum þar sem þau segja eitthvað við mig eða reyna að láta mér bregða og ganga svo flissandi í burtu.
Ég var farin að venjast þessu og hélt að þetta ætti eingöngu við litla krakka.
Þangað til í haust … Núna er ég á heimavist með 16-20 ára krökkum og ég er ennþá að lenda í þessu sama á göngunum!
Ég var fyrst svo hissa að einhverjum yfir 10 ára myndi detta það í hug að láta svona! Reyndar alltaf sömu krakkarnir - strákur sem lætur manni bregða og stelpa sem fylgir honum alltaf og labbar svo flissandi í burtu. Þau gerðu þetta nokkrum sinnum við mig og þegar ég sá þau gera þetta við systur mína og vin minn fór ég að verða pirruð!
Ég var svo í íþróttum áðan og lenti einmitt með þessum krökkum. Við áttum að vera þrjú saman á körfu, ég og systir mín fórum saman en vinir okkar fóru á aðra körfu. Okkur vantaði einn mann og þessir krakkar voru einmitt 4 saman á körfunni á móti. Ein af þeim var send yfir til okkar og hún var í svo mikilli fýlu að það var eins og það væri verið að drepa hana. Við erum ekki með þeim bestu í körfubolta og ekki þau heldur. Eftir nokkrar æfingar áttum við að fara að spila við liðið á móti.
Við byrjuðum að spila og af því stelpunni sem var sett í okkar lið er illa við okkur en vel við vini sína var hún alltaf að “missa” boltann til hinna. Ok, við vorum þá 2 ömurlegar í körfubolta móti 2 stelpum sem eru jafn lélegar (nema meiri frekjur, ýta í mann og svona) og einum strák sem er að deyja úr því hvað hann er merkilegur. Þetta var auðvitað mjög ójafnt.
Strákurinn (sem er sami og var alltaf að láta mér bregða) var alltaf að ýta eitthvað í mig og sleppti bara að fara eftir reglunum, svo ég varð pirruð. Virkilega pirruð. Ég er mjög róleg manneskja en ég hef lent í því að verða virkilega, virkliega pirruð og það er ekki sniðugt.
Allt í einu fékk ég nóg, hljóp á eftir einni stelpunni í hinu liðinu, ýtti harkalega í hana og reif af henni boltan. Hún fór bara eitthvað að flissa svo næst þegar hún var að fara að skora hoppaði ég upp og í hana.
Ég tek það fram að ég er ekki árásargjörn, hef aldrei ráðist á neinn og hætti einmitt í körfubolta af því mig vantar þessa frekju til að ná boltanum. En þetta var bara svo gott! Það er svo góð tilfinning þegar einhver hefur verið leiðinlegur við mann að fá smá að hefna sín. Ég veit að maður lærði í leikskóla að hefna sín ekki en samt.
Ég hef bara einu sinni á ævinni orðið svona pirruð. Þá hellti ég mér yfir vinnufélaga minn þangað til hann klagaði í yfirmanninn (sem líkaði reyndar illa við hann líka svo það skipti ekkert svo miklu máli …)
Allavega, ég varð bara að deila þessu með einhverjum … :)