Ég var að átta mig á svolitlu um daginn. Ég svaraði einhverjum spurningalista eða eitthvað og ein spurningin var “Treystirðu vinum þínum?” eða eitthvað álíka.
Ég á mjög góða vini. Tala um næstum því allt við þá. Nema eitt. Ég get ekki talað um neitt tengt ástarmálum við neinn. Ekki einu sinni systur mína sem ég hef þekkt alla ævi og er sú manneskja sem ég treysti best af öllum. Ég bara get ekki sagt neinum neitt svona.
Mig langar stundum að vera venjuleg stelpa sem á leyndarmál með vinkonum sínum. Mig langar að segja hverjum ég er hrifin af. Ég bara get það ekki. Ég þori því ekki. Ég er alltaf hrædd um að fólk hlæji að mér, eða geri grín að mér.
Þegar ég var lítil, í kannski fyrsta bekk eða öðrum bekk, var ég “skotin” í strák í bekknum. Ég sagði vinkonu minni það og um leið öskraði hún það yfir bekkinn. Allir gerðu grín að mér. Mér leið alveg hræðilega. Ég man bara eftir þessari tilfinningu.
Þegar ég var í þriðja eða fjórða bekk var þemavika og ég fór með bekkjarbróður mínum út að týna rusl. Það var tekin mynd af okkur og hún var hengd upp á vegg. Þá byrjuðu allir að kalla okkur kærustupar, sem mér fannst alveg hræðilegt á þeim tíma. Ekkert skrítið þótt ég hafi ekki átt strákavini í langan tíma á eftir.
Seinna komst ég nærri því yfir þetta allt. Kynntist einum af bestu vinum mínum (strákur), þótt ég hafi verið pínulítið hikandi fyrst. Og getiði hvað? Um leið og hann var farinn að sjást með okkur stelpunum komu sögur um það að hann væri með einhverri okkar.
Ekki bætir það að fjölskyldan mín bregst alveg svakalega við öllu svona. Vinkona mín kom með kærastann heim og það varð allt vitlaust hjá foreldrum okkar vinkvennanna. Allir gerðu grín að þeim.
Af hverju þarf fólk að vera svona? Af hverju þarf fólk að gera grín að þessu? Er þetta ekki eðlilegasti hlutur í heimi?