Það er korkur hérna fyrir neðan sem heitir Heimskt fólk þar sem neonballroom er að lýsa leiðinlegum vinnufélaga. Þegar ég las korkinn datt mér í hug 3 manneskjur sem ég hef unnið með sem eru alveg óþolandi! Ég ætlaði að svara en það varð svo langt þannig að þetta verður bara nöldurkorkur í staðin. Fyrirgefið ef þetta er ruglingslegt :S


Ég er að vinna í sjoppu, það er ekkert mikið að gera en stundum koma nokkrir. Við erum oftast 2 á vakt og vaktin byrjar kl. 4. Segjum bara að þessi strákur heiti Jón og hann er 20 ára, ég er hinsvegar 17 ára og þess vegna mjög ómerkileg í hans augum.

Ég kom hálf 3 til að leysa vin minn af, hann var búinn að reyna að hringja í Jón sem var of þunnur til að geta unnið frá 3. Svo kom hann kl. 4, stóð smá stund og starði útí loftið, tók svo sígarettupakka og keypti sér. Svo stóð hann aðeins lengur og starði útí loftið en tilkynnti svo að hann ætlaði að fara út að reykja. Ég ætlaði að nýta tækifærið þegar hann var kominn og setjast aðeins niður, en hann þurfti að reykja! Á meðan hann var úti þurfti ég að afgreiða, gera pulsur og dæla á þjónustudælunni (það er svona það sem maður gerir mest í vinnunni, oftast er einn í pulsunum og einn í bensíninu) Svo kom Jón inn aftur og stóð við afgreiðsluborðið meðan var ekkert að gera. Eftir smá stund tilkynnti hann að hann ætlaði að fara í mat. Ég var ekki enn búin að fá að borða.

Þegar hann var búinn að borða sat hann aðeins lengur og las blaðið. Þá kom bíll sem vildi þjónustu. En nei, Jón gat ekki dælt á bílinn því ég var búin að vera í því þann daginn (eins og öllu öðru). Ok, ég bjóst við því að hann myndi þá sjá um pulsurnar í staðin. Nei, hann lét mig gera það og kvartaði svo undan því að þær væru ekki nógu vel steiktar hjá mér (sem hann gerir daglega, milli þess sem hann reynir að segja mér hvað ég get gert betur í öllu öðru). Þarna var nokkuð langur tími liðinn af vaktinni og hann hafði ekki enn gert neitt, datt ekki einu sinni í hug að raða í hillur eða neitt.

Þá kom vaktstjórinn og bað hann að fylla á goskælinn. Hann sagðist ætla að gera það og las blaðið sitt áfram. Eftir 5 mínútur kom vaktstjórinn aftur og sagði honum að fara inná kæli. Þá fór hann á fætur, fór inná kaffistofu að gera ekki neitt! Vaktstjórinn spurði hvort hann væri inni á kæli en komst að því að hann var bara inni á kaffistofu að gera ekki neitt! Þá loksins tókst honum að fá Jón til að fara inná goskæli.

Allan þennan tíma hafði ég verið að afgreiða. Svo þegar hann var búinn að fylla á gosið var ég orðin svöng svo ég sagðist ætla í mat. Vinkona mín sem ég hafði ekki hitt lengi var þarna og ég settist með henni að borða. En nei, ég mátti ekki vera í matartíma í friði því alltaf þegar viðskiptavinur kom þurfti Jón að hverfa! Af því ég var búin að vera lengi pirruð á honum, og af því hann situr venjulega í klukkutíma og talar við vini sína, ákvað ég að sitja bara lengi og tala við vinkonu mína. Það hefði ég reyndar aldrei gert með öðrum á vakt, heldur hefði ég fundið mér eitthvað að gera (þótt það væru fáir viðskiptavinir). Þá loksins ákvað hann að fara að afgreiða!

Ég og vaktstjórinn (sem er reyndar vinur minn) erum búin að ákveða að kvarta útaf honum … Vinur minn er að vinna með honum í allt sumar því hann er eini sem getur stundum fengið hann til að gera eitthvað. En þótt ég sé ekki skráð á neinar vaktir með honum tek ég stundum aukavaktir og lendi með honum :S


Það er gott að koma þessu frá sér :) Þetta var nöldur dagsins frá mér :P Takk fyrir.