Eitt af því sem ég fyrirlít helst er heimskt fólk. Því miður er alltof mikið af svoleiðis í veröldinni, og það er ein sérstaklega heimsk stelpa að vinna með mér.
Það er ekki nóg með að hún sé heimsk, heldur er hún ótrúlega löt og kærulaus líka. Ég er semsagt að vinna í búð núna í sumar ásamt þessarri stelpu. Hún hefur aldrei áður unnið neinstaðar nema í unglingavinnunni þar sem er tiltölulega auðvelt að komast hjá því að vinna. Núna hyggst hún greinilega ætla að vinna sem minnst, en bara á hærri launum.
Til að fá útrás fyrir pirring minn yfir henni skal ég deila nokkrum dæmum með ykkur.
Það gengur alltaf fyrir að fylla á kæliborðin; þ.e. kjötborðið, grænmetsborðið, mjólkurvörurnar og það. Sama hvað við segjum henni það oft þá virðist hún ekki ná því.
Stundum virðist hún ekki vita alveg hvað hún eigi að gera. Ekkert að því, ég var svoleiðis fyrstu dagana mína. Nema hún er búin að vera þannig í þrjár vikur! Henni dettur ekki einusinni í hug að spyrja okkur hvað hún get gert næst, í mesta lagi spyr gaurinn sem er að vinna við að fylla á gos- og mjólkurkælana sem hefur auðvitað ekki hugmynd um hvað hún á að gera.
Jæja, þá reynum við að segja henni hvað þurfi að gera þegar við sjáum að hún stendur bara og glápir útí loftið. Það gengur ekki vel.
Um daginn átti eftir að taka vörur af nokkrum brettum og ganga frá þeim. Við báðum hana um að gera það. Þá sagðist hún ekki vita hvað bretti væru. Jæja, við bentum henni á þessi bretti og lýstum því fyrir henni hvað ætti að gera. Það er nú ekki flókið, taka vörurnar af þeim og setja þær í hillurnar frammi ef eitthvað vantar, og fara svo með restina á lagerinn.
Hálftíma seinna sá ég hana svo ráfandi um í leikfangadeildinni að skoða dótið! Einmitt. Þá spurði ég hana afhverju hún væri ekki að taka af brettum, það þyrfti að taka allt af þeim fyrir kvöldið. Þá segir hún bara “Ha, ég veit ekki hvað þú meinar” með slefandi óvitasvip. Þá sé ég að þetta er augljóslega of flókið fyrir greyið, svo ég sagði henni að sjá um að fylla á grænmetisborðið á meðan ég myndi taka af helvítis brettunum. Hún ætti að geta það, bara að fara með kál, paprikur, epli og þessháttar fram þegar þeim færi fækkandi í borðinu. Neinei, ekki gerði hún það, hún fór og hékk inní ostakælinum í korter! Auðvitað voru allir orðnir pirraðir á að þurfa að vinna vinnuna sem hún átti að gera, í viðbót við sín eigin störf.
Um daginn sáum við líka að eggin voru að klárast og báðum þessa stelpu um að bæta á eggin. Hún sagðist ætla að gera það bráðum, þar sem hún þurfti nauðsynlega að fara með tvo kryddstauka í kryddhilluna! Og ótrúlegt en satt, hún bætti aldrei á helvítis eggin.
Í gær var geðveikt mikið að gera, þar sem það var lokað í dag og á morgun. Henni datt ekki í hug að vinna handtak af viti, og faldi sig bara inná lager og fór fram með einn seríóspakka á tíu mínútna fresti.
Við krakkarnir sem erum að vinna með henni getum náttúrulega ekkert verið að skipa henni fyrir þar sem við erum ekki yfirmenn hennar, svo við reynum að leiðbeina henni í staðinn. Svo hlustar hún ekki einusinni á þegar við reynum að hjálpa henni!
Í gær var hún að fara með einhverja síld fram. Við sögðum henni að láta krukkurnar í kassa svo þær myndu örugglega ekki detta niður og brotna. Hún nennti því ekki, var svo viss um að þær myndu ekki brotna. Og getið hvað… hún missti eina niður og hún brotnaði á gólfinu og þetta ógeðslega græna gums fór um allt. Og datt henni í hug að þrífa það upp? Aldeilis ekki. Henni fannst mikilvægara að fara með annan seríóspakka fram þó það væri engin þörf á því.
Þegar ég er á kassa leysir hún mig oftast af á öðrum kassa á meðan ég fer í kaffi. Ef það myndast löng röð á hún að dingla bjöllu til að fá mig aftur fram. Þið skiljið samt að það er ekkert rosalega skemmtilegt að reyna að slappa aðeins af í kaffi þegar það er dinglað á mann á tveggja mínútna fresti. Hún gerir það nefnilega. Samt ekki ef það er löng biðröð. Það hefur komið fyrir að hún dinglar, ég kem fram og þá er enginn sem þarfnast afgreiðslu! Þá segir hún bara: “Já, ég hélt það væri einn að koma en hann kom svo ekki…”. Ó, en æðislegt.
Einhvernveginn tekst henni svo að gera allt vitlaust eða gera bara ekki neitt. Við reynum einsog við getum að leiðbeina henni, en hún hlustar bara ekki!
Okkur langar að tala við verslunarstjórann um hana, en okkur finnst það samt svo rangt að kvarta yfir henni. Ef hún bætir sig ekki á næstu dögum gerum við það samt líklegast.
Ég hef svosem ekkert á móti heimsku fólki, á meðan heimska þeirra bitnar ekki á öðru fólki. Ég veit ég sjálf er ekki alvitur, ég rugla oft sjálf og geri mistök, en ég reyni allavega að gera rétt. Ég er heldur alls ekki að reyna að setja mig á einhvern stall, ég er einungis að gera mitt besta til að gera heiminn að betri stað. Ég tel heimskt fólk nefnilega eina verstu ógn samfélagsins. Plís… ekki lemja mig!
Og já. Þetta var nöldur dagsins.