Yngri frænka mín spurði mig um daginn hvort að konur væru ekki líka menn. Jú, svaraði ég og spurði á móti hvað hún héldi að þær væru annars, kannski apar? Hún er vön svona útúrsnúning frá mér. Svo kom upp úr dúrnum að hún hafði lent í rifrildi við eldri stelpur í skólanum eftir að hafa haldið þessu fram - og fyrir vikið var hún kölluð ýmsum ljótum nöfnum.
Þessi aðgreining sem er í raun engin aðgreining, því jú enginn er að halda því fram að konur séu einhver önnur dýrategund, virðist dálítið algeng í máli manna. Ansi oft maður heyrir „og konur“ bætt aftan við orðið menn eftir smá hik. Sjálfur held ég að þetta hafi spottið upp fyrir áhrif frá politically correct (PC eða písí) hreyfingunni sem tröllreið ensku máli fyrir um tíu til fimmtán árum.
Ekki veit ég til þess að karlmenn hafi reynt að eigna sér orðið maður og skil ekki hvers vegna þarf að tiltaka sérstaklega að konur fylgi með.
Ps. það gladdi mig að sjá út frá leit á google að „karlar og konur“ o.s.frv. er þó algengara en „menn og konur“, einnig ef samsetningunum er snúið við. Of lítill munur þó fyrir minn smekk.