Ýmsir, sem hafa séð ástæðu til að skrifa á þessa vefsíðu, virðast ekki hafa lesið grein mína ýkjavel. Sjálfur upphafsmaðurinn ónefndi segir: “En þegar að einhver gerist svo viðurstyggilega djarfur að setja grein sem þessa
http://www.kirkju.net/index.php/jon/2006/02/21/p206 get ég ekki orða bundist, að halda því fram að samkynhneigðir séu líklegri en aðrir til þess að fremja kynferðisbrot gegn sínum eigin börnum finst mér hreinast sagt glæpur.”
En ég hef EKKI haldið þessu fram. Ég hef hins vegar vitnað í rannsóknir, sem sýna (1) að “þeim, sem sjálfir hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi ungir, er fjórum til 4,7 sinnum hættara við því að grípa til kynferðisofbeldis síðar á ævinni heldur en þeim sem aldrei upplifðu slíkt ofbeldi á eigin skinni;” þetta var talað án tilvísunar til samkynhneigðra sérstaklega, en virðist m.a. eiga við um föður Telmu Ásdísardóttur (sem var ekki hommi); og ég (2) vitnaði í aðrar rannsóknir, sem sýndu, skv. prófessor dr. Rekers, að "af því að fullorðnir, samkynhneigðir karlmenn reyndust hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi 6,6 sinnum oftar heldur en hlutfallið var hjá fullorðnum, gagnkynhneigðum karlmönnum, þá má gera ráð fyrir því á grundvelli reynslunnar, að fullorðnir, samkynhneigðir karlmenn yrðu 6,6 sinnum líklegri [en hinir gagnkynhneigðu] til þess að gera sjálfir unglingspilta að fórnarlömbum sínum". Ef þetta er rétt, þá þýðir það samt ekki, að það séu fleiri hommar heldur en gagnkynhneigðir sem séu kynferðisbrotamenn, því að hópur þeirra fyrrnefndu er svo smár (hommar eru um 2,6–2,8% karlmanna í Vesturheimi). Svarið við spurningu ‘hellriders’ (þeir sem fremja kynferðisbrot á börnum eru kannski oftast samkynhneigðir?) er því nei.
Orðin hér ofar: “líklegri en aðrir til þess að fremja kynferðisbrot gegn sínum EIGIN börnum” eru heldur ekki mín orð né meining. Ég hef fulla ástæðu til að telja, að samkynhneigðir virði börn sín og elski, enda búnir að eiga þau og þekkja frá fæðingu þeirra, jafnvel fyrir fæðingu þeirra, og alið þau upp, yfirleitt með maka af hinu kyninu í þónokkur ár, þar til viðkomandi varð samkynhneigður. Það eru ættleiðingarbörnin og endurteknar stjúpættleiðingar, sem ég hef áhyggjur af, a.m.k. ef miðað er við tölur (á fyrrnefndri vefsíðu minni) um stuttan meðal-sambúðartíma samkynhneigðra. Íslenzkur sérfræðingur, Helgi Gunnlaugsson afbrotasálfræðingur, bendir okkur á það í DV 9. marz 2006, s. 8, að “rannsóknir hafa sýnt, að tilhneiging kynferðisafbrotamanna er frekar í stjúpbörn en raunbörn.” Þetta o.m.fl. styrkir okkur í því áliti, að ekki séu miklar líkur á því að samkynhneigðir fremji slík brot gegn sínum eigin börnum.
Í þessu dæmi – eins og hinu hér ofar – er nú komið í ljós, að það var klaufaleg fljótfærni að gera mér upp aðrar skoðanir en ég raunverulega hef, enda hef ég ekki tjáð mig á þennan máta, sem “kazaaguy” ræðst á með of miklum bægslagangi.
Þá telur hann mig eða okkur sem stöndum að vefsíðunni kirkju.net hafa þá afstöðu, að Guð “skapi eitthvað sem að er vitlaust,” en sú er alls ekki afstaða mín né þeirra; – ef þið spyrjið mig þá um samkynhneigða, þá tel ég Guð ekki skapa börn með þá hneigð – ‘hommagenið’ hefur ekki fundizt, og hvorki ættarsaga né tvíburarannsóknir hafa leitt í ljós, að hneigðin sé arfgeng eða meðfædd.
Ég er ekki kominn langt í yfirferðinni, en það er af nógu öðru að taka, ef maður ætti að fara að leiðrétta allt!
Haldið áfram að vera leitandi að sannleikanum, en sparið stóru orðin. Ég lýsi eftir alvörurökum gegn grein minni og er fús að taka mark á öllum sönnunum eða vísbendingum áreiðanlegra kannana um þessi mál. Þið hefðuð getað valið aðra tveggja leiða (eða báðar): að afsanna þau atriði, sem ég miðlaði og benti á í grein minni (‘Samkynhneigðir vanhæfari …’) eða að koma með pósitífar sannanir fyrir öðrum staðreyndum í málunum. Hvoruga leiðina völduð þið, heldur hressileg lítil innlegg án þess að kanna málin betur.
“kazaaguy” segir mér að “iðrast[] gjörða [m]inna og skammast[ m]ín!” en ég bið hann 1) að vera hreykinn af eigin nafni og skrifa sem slíkur, því að ekki heitir hann kazaaguy, og í 2. lagi er honum velkomið, annaðhvort hér eða á vefsíðu minni, að koma með rökstudda gagnrýni (og lausa við stóryrði) og nýjar upplýsingar um málin. Ég er líka leitandi að sannleikanum (hef reyndar rannsakað margt í sambandi við þessi mál) og hverf fúslega frá sérhverri villu, ef einhver sýnir mér fram á hana. Engan hug hef ég á því að halda fram lygum eða þvælu sem stenzt ekki og ennþá síður að niðra samkynhneigðum eða rægja þá. Þeir eru Guðs sköpun eins og við.