Randy Quaid segir framleiðendur Brokeback Mountain hafa svikið sig
Leikarinn Randy Quaid er sagður ætla að lögsækja framleiðendur kvikmyndarinnar Brokeback Mountain, eða Hryggbrotsfells, vegna launamála. Quaid segist hafa verið blekktur til þess að þiggja lægri laun en hann átti skilið fyrir leik sinn í myndinni. Framleiðslufyrirtækið Focus Features hafi logið því að honum að lítið ráðstöfunarfé væri til gerðar myndarinnar, að því er Quaid segir í viðtali við tímaritið Variety.
Quaid krefst 10 milljóna dollara í skaðabætur, um 714 milljóna króna. Talsmaður Focus Features vill ekki tjá sig um málið, að sögn fréttavefjar BBC. Lögmenn Quaid kalla meint svik kvikmyndaframleiðandans „kvikmyndaþvætti“ en Hryggbrotsfell hlaut þrenn Óskarsverðlaun í ár og hefur hlotið mikið lof kvikmyndagagnrýnenda ólíkra landa. Quaid hefur leikið í fjölda kvikmynda og fór m.a. á kostum í hlutverki ógeðfellds frænda sem leggst upp á fjölskyldu Chevy Chase í kvikmyndinni National Lampoon´s Christmas Vacation.
Var virkilega ekki hægt að þýða Brokeback Mountain öðruvísi en Hryggbrjótsfell?? Hvaða rugl er þetta? Hvað með eitthvað einfalt og gott eins og Bakbrjótsfjall, jahá, það er svo miklu betra.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.