mbl.is
Lagi Silvíu Nætur ekki vísað úr keppni

Útvarpsráð tók þá ákvörðun á fundi í dag, að vísa ekki laginu Til hamingju Ísland, sem Silvía Nótt flytur, úr Söngvakeppni Sjónvarpsins þótt lagið hafi lekið út á netið. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í dag. Útvarpsráð tók í morgun fyrir stjórnsýslukæru frá Kristjáni Hreinssyni, en komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að kæra ákvörðun útvarpsstjóra til ráðsins.

Lögð var fram greinargerð frá lögmönnum Ríkisútvarpsins, en þar kemur m.a. fram að ekkert kærusamband er milli útvarpsráðs og útvarpsstjóra og því engin heimild til að kæra fyrrgreinda ákvörðun útvarpsstjóra til útvarpsráðs. Ákvörðun útvarpsstjóra sé endanleg og verði hvorki skotið til útvarpsráðs né annarra.