Ef ég les þetta rétt þá getur sá sem hefur góð laun (yfir 257.000) fengið 180.000 í atvinnuleysisbætur þrátt fyrir það að hafa borgað nákvæmlega sama tryggingargjald og allir aðrir. Þetta er næstum helmings mismunur.
Í raun er verið að verðlauna þeim sem minnst þurfa á því að halda þó það sé borgað sama gjaldið. Sá sem hefur svona rosalega góð laun er í bestu stöðu til að geta lagt peninga inn á sparibók, þetta er bara þeirra vandamál ef tvíbýlishúsið og jeppinn eru nauðsynlegra en fjárhagslegt öryggi.
Sanngjarnast er að miða rétt á bótum miða við hversu mikið er borgað í trygginguna. Sá sem er á 257.000+ kr launum ætti alveg að eiga efni á því að borga helmingi meira í tryggingargjöld en sá sem er á lágmarkslaunum. Þetta lið má hoppa upp í rassgatið á sér mín vegna!
___________________________________
Ekki er talið nauðsynlegt að hækka atvinnutryggingagjald þó atvinnuleysisbætur hækki og tekjutengdar atvinnuleysisbætur verði teknar upp, samkvæmt samkomulagi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá í gær.
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í gær segir að hún muni beita sér fyrir lagasetningu um breytingar á greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við samkomulag ASÍ og SA. Í því samkomulagi er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar þannig að þær verði allt að 70% af meðal heildartekjum samkvæmt launaseðlum síðustu 6 mánaða, að síðasta mánuði fyrir atvinnumissi undanskildum. Þó geta tekjutengdar atvinnuleysisbætur ekki orðið hærri en 180.000 krónur, sem eru 70% af 257.000 krónum.
Sá sem sækir um atvinnuleysisbætur fer þó ekki beint á tekjutengdar bætur því hann þarf að vera á grunnbótum fyrstu 10 dagana. Tekjutengdar bætur verða greiddar í að hámarki 3 mánuði yfir 3 ára tímabil. Þegar réttur til tekjutengdra bóta hefur verið fullnýttur endurnýjast hann á 2 ára tímabili.
Þá var einnig samþykkt að grunnatvinnuleysisbætur hækki úr 91.500 krónum í 96.000 krónur á næsta ári og hækki svo um 2,9%, eins og laun, þann 1. janúar 2007. Þessar miklu breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu verða fjármagnaðar með greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði. Ekki þykir þó ástæða til að hækka atvinnutryggingagjald þar sem sjóðurinn hefur svigrúm til að fjármagna breytingarnar miðað við núverandi atvinnuleysisstig, segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.