Jæja, vegna þeirra gífurlegu vinsælda sem reynslusögur mínar hafa uppskorið hér á huga og mikillar eftirspurnar eftir nýrri viðbót í safnið, og vegna þess einfaldlega að í því ástandi sem ég er í núna er ég algjörlega ófær um það að gera nokkurn skapaðan hlut annan en að sitja við tölvuna mína og munda mig við að hripa einhver fátækleg orð niður á lyklaborðið, hef ég ákveðið að deila með ykkur reynslu minni af því, þegar dregnir voru úr mér endajaxlar í neðri góm. Ég mun reyna að lýsa hlutunum eins nákvæmlega og mögulegt er (sem ætti kannski ekki að vera svo erfitt þar sem þetta gerðist eiginlega allt bara núna í hádeginu) og vona að þið hafið gagn og þó aðallega gaman af… (meira nöldrið, ha?).
Ok, svo er nú mál með vexti, að kallinn er að fara til útlanda (þar sem “kallinn” er ég) til lengri tíma og þurfti því að ganga frá öllum lausum hnútum varðandi heilsu og heilsufar, til að koma í veg fyrir óvænt leiðindi, með tilheyrandi kostnaði og aukaleiðindum, þegar út er komið, ef eitthvað óheppilegt skyldi nú koma upp á. Einn af ofangreindum hnútum var allsherjarskoðun á tanngarði mínum, til að ganga úr skugga um það að óuppkomnir endajaxlar yrðu ekki til vandræða seinna meir, á meðan á dvöl minni ytra stendur. Því miður kemur það upp á daginn að sennilegast myndu fyrrnefndir endajaxlar ekki halda kyrru fyrir á sínum stað á næstkomandi árum ef ekki yrði gripið inní áður en ég fer út. „Ekkert mál“, segi ég, „við kippum þeim bara út“.
Ég er kjáni.
Jæja, ég fæ alla vega bókaðan tíma hjá tannsérfræðingi nokkrum niðri á Grensásvegi þann 4. október til þess að rífa þessar elskur út. Allt gott og blessað um það að segja. Til að byrja með alla vega. Þegar nær líður að þessum blessaða tíma mínum fara að renna á mig tvær grímur. Tröllasögur um það hversu ógnvænlegar svona “tanntökur” eru allar saman, fara að berast manni frá vinum (já.. þetta fólk dirfist að kalla sig vina mína) og vandamönnum. Biðin, sprauturnar, sársaukinn, krukkið, blóðið o.s.frv. Þetta getur ekki verið gott. Og til að toppa þetta allt saman þá segir mamma mér söguna af því þegar rífa þurfti einhvern jaxl úr henni. Hún fór nú reyndar bara til tannlæknisins síns sem ætlaði að kippa út einhverjum sýktum jaxli, eða eitthvað í þá áttina. Það gekk þó ekki betur en svo að þetta endaði sem nærri þriggja tíma aðgerð. Jaxlinn víst bútaður niður í einhverja 30 parta, en út vildi hann ekki. Tannsi kallinn kófsveittur og á við það að fá taugaáfall, var nærri búinn að hringja í sjúkrabíl til að flytja mömmu niður á sjúkrahús, þegar hann nær loks að rífa tönnina úr. Svo heyrir maður sögur af því að hann hafi í kjölfarið keypt sér bjálkakofa í afskekktu sveitaþorpi í Noregi þar sem hann settist að og lifir nú á eftirlaununum sínum. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það.
Til að bæta gráu ofan á svart fæ ég svo þessa svaðalegu magakveisu þann 3. október (í gær) og ligg rúmfastur nær allan daginn. Ég geri ráð fyrir að það séu ekki margir sem lent hafa í því að vera fárveikir (eða “ekki-svo-hressir”, eftir því hvort glasið er hálf-tómt eða hálf-fullt ) og þurfa svo að ganga í gegnum slíka eldraun sem “endajaxlaúrrifning” er, strax daginn eftir, en trúið mér, þegar maður liggur uppí rúmi með magann sinn á fleygiferð helminginn af deginum og situr á klóstinu með bullandi ræpu hinn helminginn af deginum, þá er það að láta rífa úr sér hrúgu af endajöxlum daginn eftir, ekki efst á óskalistanum.
Blessunarlega næ ég þó ágætis nætursvefni og vakna hress og kátur (svona eftir atvikum) núna í morgun. Ég hef mig til, bursta í mér tennurnar og skunda niðrá Grensásveg. Til að gera langa sögu stutta (eða svona… eins stutta og hægt er eins og málin standa núna) þá byrjar kallinn á að sprauta mig. Og þar sem ein sprauta dugar nú sjaldnast þá skellir hann svona 7 eða 8 sprautum upp í mig í viðbót. Bara til öryggis. Og nei… ég er ekki að grínast. Mætti halda að þær hefðu allar verið merktar “Best Fyrir: 04-10-2005”, svo ákafur var kallinn á að dæla þessu öllu upp í mig. Og hvað gerist í kjölfarið? Jújú, vissulega. Ég verð dofinn. Mjög dofinn. Svona “mjög dofinn” as in þetta “hérna” (þetta er linkur, btw) var eins og lautarferð í garðinum á sólríku sunnudagseftirmiðdegi. Ég lýg því ekki. Þetta hafði þó það í för með sér að ég fann afskaplega lítið fyrir því þegar kallinn byrjaði að krukka í tönnunum á mér. Jújú… maður gerði sér alveg grein fyrir því þegar hann byrjaði að pota í gegnum tannholdið og niður í óuppkomnar tennurnar, en ef maður hugsaði ekki allt of mikið út í það (og hversu virkilega ógeðslegt þetta var allt saman) þá var maður í lagi. En bara í lagi. Með áherslu á bara. Jæja, aðgerðin sjálf gengur framar vonum, þökk sé sprautuóðum sérfræðingnum og samstarfsfúsum endajöxlunum og ég hlæ eilítið innra með mér að öllum þessum aumingjans sálum sem fannst þetta virkilega erfitt! Pufff… Meira að segja deyfingin virtist ekki vera svo slæm þegar þetta var allt yfirstaðið. Ég stóð mig eins og lítil hetja! *Klapp á bak* Ég var vissulega tveimur endajöxlum og rúmum 30.000 kalli fátækari, en ég hafði gengið í gegnum þessa eldraun algjörlega upp á eigin spýtur og staðið mig með prýði. Mamma beið meira að segja inni á biðstofu á meðan á öllu þessu stóð! Oooog… ég fékk lyfseðil upp á áður ólyfseðilskylt parkódín!
Áður en haldið var heim á leið var ég þó varaður við því, að þegar deyfingin færi að draga sig í hlé myndi ég eflaust finna fyrir smá sársauka, en ég blés nú bara á það. Parkódín, sjáiði til. :)
Núna, 4 og hálfri klukkustund síðar hef ég þó komist að því að 2 töflur af parkódíni á 4 klukkustunda fresti jafnast engan veginn á við 8-9 sprautur af tannlæknadeyfingu á 5 sekúndna fresti, þegar kemur að því að bæla niður sársauka. Mér er illt. Mig langar að gráta. Og ef þið haldið að það, að bróðir minn sé að elda pizzu ætti að láta mér líða vel, þá skjátlast ykkur hrapalega. Ég þarf nefninlega að lifa á fljótandi fæði næsta sólarhringinn. ÞIÐ VITIÐ! AF HVERJU VAR ÉG EKKI BARA SENDUR UPP Á HRAFNISTU?! ÞAÐ TEKUR MIG EKKI NEMA RÉTTAR 5 MÍNÚTUR AÐ LABBA! Böööh…
Vitiði það, hugarar góðir, að næst þegar þið eruð með svo slæma tannpínu að þið vilduð helst láta rífa úr ykkur hrjáðu tönnina, þá skuluði hringja í mig og ég skal sjá um að sparka svo duglega í sköflunginn á ykkur að allar tennur og tannrífingar eru svo fjarri hugskotum ykkar að þið mynduð hlæja. Úr grátri. Bókstaflega. Og pæliði í því… ég væri samt að gera ykkur greiða.
Og þannig er það nú bara.
Vá annars, hvað ég get hripað niður af fátæklegum orðum, svona þegar ég kemst á skrið. Nennti varla að lesa þetta sjálfur yfir. :S