Nöldur? Kannski. Tilraun til að sýna fram á hversu súrrealísku lífi ég lífi? Eflaust.
Ég vil bara byrja á að vara fólk við því að borða McVities karamellukex, sérstaklega ef það fær þá flugu í hausinn að troða heilu kexi upp í sig í einu.
Þannig er nefninlega mál með vexti að ég sat hér fyrir framan tölvuna við heimasíðusmíð. Og þar sem almennt verður að teljast vonlaust að smíða heimasíður án einhvers snarls (eða jafnvel snakks) þá hafði ég mér til halds og trausts McVities karamellukexpakka (<— þetta er gott orð, btw). Í fyrstu gengur snuðrulaust fyrir sig að hrúga þessu góðgæti í sig, tek þetta bara rólega, þið vitið.. hefðbundnir tveggja-bita-bitar, ekkert stress og allt gengur eins og smurð vél. En svo dettur mér í hug, hversu öfgamagnað það væri nú að troða heilu kexi uppí sig í einum bita! Rökrétt væri að álykta að ánægjan sem hlytist af því væri tvöföld sú ánægja sem hlýst af hinum hefðbundnu tveggja-bita-bitum (enda tvöfalt magn súkkulaðis, tvöfalt magn karamellu og tvöfalt magn kexs (<—- kex í eignarfalli er líka gott) uppí munninum á mér, þið vitið… á sama tímapunkti). Rétt? Rétt? RANGT!
Ég er ekki fyrr byrjaður að munda mig við það að tyggja kexið (sem reynist þrautin þyngri, enda örugglega góðir 5 cm í þvermál) að ég finn svona óþægilega “ouch” tilfinningu í draslinu sem festir tunguna við munnin (já, þetta þarna undir tungunni, band… ruslið?). Þetta kemur auðvitað fremur flatt upp á mig enda ekki oft sem maður meiðir sig tilfinnanlega á kexi.
Svona eftir á að hyggja þá held ég að þegar ég bít í kexið, þá hafi kex og súkkulaðihlutinn af kexinu brotnað í sundur en karamelluhlutinn kom sennilegast í veg fyrir að kexið hafi dottið algjörlega í sundur. Og í öllum troðningnum og hamagangnum uppí munninum á mér, þá hefur kexhlutinn einhvernveginn kramist aftur saman og klemmt mig. Í munninum. Og ef það hefur ekki komið almennilega fram, fram að þessu, þá var þetta vont.
Ég vona því að þessi klausa mín verði ykkur framagjörnu kexbruðningamönnum víti til varnaðar. Slysin gera ekki boð á undan sér.