Verð víst að leiðrétta mig örlítið, auglýsingar inni í þáttum eru ekki ólöglegar, hins vegar verða að líða minnst 20 mín milli auglýsingahléa, skyldi maður ætla …
VI. kafli. Auglýsingar, fjarsala og kostun.
16. gr. Almennar meginreglur.
Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Sama gildir um fjarsöluinnskot.
Duldar auglýsingar eru bannaðar, sem og dulin fjarsöluinnskot.
Í auglýsingum og fjarsöluinnskotum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.
17. gr. Tímar fyrir auglýsingar og fjarsöluinnskot.
Almennt skulu auglýsingar fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Sama skal gilda um fjarsöluinnskot.
Einstök auglýsinga- og fjarsöluinnskot skulu ekki leyfð nema í undantekningartilvikum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal vera heimilt að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa, svo sem hér segir:
a. Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilega dagskrárliði, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum á þann veg að auglýsingum og fjarsöluinnskotum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
b. Útsendingu kvikmynda, þar á meðal kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma eða fjarsöluinnskoti. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
c. Ef dagskrárliðir, aðrir en þeir sem fjallað er um í a-lið, eru rofnir með auglýsingum eða fjarsöluinnskotum skulu líða a.m.k. 20 mínútur milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.
Óheimilt er að skjóta auglýsingum eða fjarsöluinnskotum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn. Þó er heimilt að rjúfa fréttatengda dagskrárliði ef þeir eru lengri en 30 mínútur.
18. gr. Takmarkanir á auglýsingatíma í sjónvarpi.
Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin fjarsöluinnskot að undanskildum fjarsöluþáttum í skilningi 19. gr. Hlutfall auglýsinga og fjarsöluinnskota innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%. Hvað þessa grein varðar telst eftirfarandi ekki til auglýsinga:
a. Tilkynningar frá sjónvarpsstöð í tengslum við dagskrárefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni.
b. Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.
heimild:
http://www.althingi.is/lagas/131a/2000053.html