Þú ert með nokkrar týpur hér á Huga. Ég skal telja upp þær þrjár sem mér finnst mest áberandi.
Sprellarinn: Sprellarinn er kemur ætíð með, að hans mati, sprenghlægileg svör. Oftast innihalda þau samhengislausar setningar sem búnar eru til úr handahófskenndum orðum. Sprellarar ferðast oft saman í hópum og mynda langar samræður sín á milli.
Skáldið: Skáldið er sú týpa sem, að meðaltali, sýnir mest rétta stafsetningu og málfar. Skáldið semur oft langar greinar og verður ósjaldan frægt innan vefsins. Annað sem einkennir Skáldið er að hugarar virðast annað hvort hata það eða dá, ávallt miklar tilfinningar í garð þess. Skáldin ýmist standa saman eða snúast gegn hvor öðru.
Gamlinginn: Gamlinginn er þekktur nöldurseggur, hann talar mikið um hversu betri Hugi var í gamla daga þegar hann var ungur. Hann ásakar mjög oft Skáldið um að bera ábyrgð á þessu en telur Sprellarann varla virði sinnar athygli, þó kemur af og til nöldur í garð hans líka. Gamlingjar virðast hvorki standa saman né berjast innbyrðis, þeir eru oft einir á ferð og beina ekki mikilli athygli að hvor öðrum.
Nú til að svara spurningunni: Er Hugi óþroskaður? Mögulega, stundum. En hann hefur alltaf verið þannig og verður það alltaf. Stórar spjallsíður einkennast af þessu, hvað þá þegar á stöðum eins og Forsíðunni þegar það er ekkert eitt svið eða umræðuefni sem sameinar alla.
Á minni spjallsíðum er minna mál að elta uppi fólk sem er ekki með neitt nema skítkast og banna það, en þegar um svona gríðarlegan fjölda er að ræða er það nánast alveg ógerlegt, ekki nema margir stæðu á bakvið það.
Málið er bara að ekki láta þetta angra sig, það er enginn að neyða þig til að lesa neitt. Ef Sprellara samræður angra þig, flettu yfir þær. Ef þér leiðast ákveðin Skáld, forðastu þá korka og greinar þeirra. Og ef Gamlingjarnir eru að fara í taugarnar á þér getur þú einfaldlega sleppt að lesa nöldrið í þeim. Svo einfalt er það.