Nei, ég ætla nú ekki beinlínis að fara að ræða um þennan ágæta þátt sem kenndur er við Silvíu Nótt þótt brýnt sé.
Ástæðan fyrir titlinu var engin önnur en sú að lokka lesendur Huga í einhverja alvöru vitræna umræðu.
Það sem liggur mér á hjarta í dag er hvorki meira né minna en átökin í Íslandsbanka.
Það er vægast sagt sorglegt að sjá þar á meðal hlutabréfaeigenda og stjórnenda þessa fornfræga banka Georgs sparibauks (aka mörgæsarinnar) vini og fóstbræður berast á banaspjót.
Þótt mörgum hafi blöskrað fréttir nýlega þess efnis að Einar Sveinsson stjórnarformaður og Bjarni Ármannson forstjóri (sem ég man svo vel eftir sem bjarteygðum og framsýnum forstjóra Fjárfestingarbanka Atvinnulífsins hér í gamla daga þegar lífið var ennþá mun einfaldara)hafi lánað sjálfum sér dágóða summu til að geta keypt hlut Jóns Helga Guðmundssonar (stundum kenndan við Byko) og geta þannig tryggt sér meirihlutayfirráð í bankanum þá verð ég að viðurkenna að ég hallast helst á sveif með þeim. Eins og ég sé þetta lítur út fyrir að þeir séu einfaldlega að verja afrakstur vinnu sinnar við bankans fyrir gráðugum lúkum fjárfestingafélagsins Straums sem hefur lengi gínt yfir bankanum.
Með 1,8% hluti Jóns Helga var samt sagan ekk öll sögð. Dóttir hans (eða ætti ég að segja strengjabrúðan hans?) Steinunn Jónsdóttir átti enn 4,13 % hlut og var tilbúin til að falbjóða sig. Hófst þá æðisgengið kapphlaup á milli Straums og tvíeykisins um þennan örlagahlut, eins og ég býst við að flest ykkar hafi staðið á öndinni yfir undanfarna daga (ásamt meirihluta þjóðarinnar).
Á því urðu þó þær undalegu málalyktir að Björgólfur Guðmundsson í nafni Burðarás (Landsbankinn, líka þartil nýlega meirihlutahafi í Eimskipafélaginu) keypti þennan hlut við litlar undirtektir hæstvirst Viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrirsdóttir (sem bölvaði honum allhressilega nú í morgunútvarpinu í gærmorgun enda afar mótfallin því að Landsbankinn og Íslandsbanki séu eitthvað að rugla saman reitum sínum (nema ef vera skyldi í sérstakri framsóknarsæng?)).
Við það virðist að valdajafnvægi hafi komist á ný eftir þennan dáradans og fátt breyst í stjórn bankans þó að óneitanlega sé ívið þyngra andrúmsloftið en áður, og varla verið spennuþrungnara síðan ORKA hópurinn reyndi yfirtöku eins og alþjóð man hér um árið. Eftir stendur samt að TEH PUPPETMASTER á bakvið þetta allt saman er Karl Vernerson sem á ásamt systkinum sínum u.þ.b. 13 % hlut í bankanum. Hann er í hálfgerri oddastöðu; hingað til hefur hann stutt við bakið á Einar og Bjarna en ástæðan fyrir æsinginum undanfarið er að miklum hluta til einmitt sú að Karl hefur æ meira verið að daðra við Straumsmenn, en hann gæti myndað nýjan meirihluta með þeim og sett Bjarna Ármanns og Einar Sveins út í kulda. Í karli blundar stórveldisdraumar. Á margri kaffistofunni og í mörgum beðum vinnuskólans síðastliðna daga hefur almúginn verið að spekúlera hvað Karl sé spá. Sumir segja að markmið hans sé það fyrst og fremst að mynda þær aðstæður að sameining við Landsbanka verið óhjákvæmileg og fá þannig fram raunhæfan keppinnaut við KB banka í stærð og umfangi. Aðrir eru jafnvel enn spámannslegri og fullyrða að Karl hafi lengi verið að stinga saman nefjum við sjálfan Jón Ásgeirsson og fleiri áhugasama fjárfesta, og með Baug innanborðs sé ætlunin að mynda stórkostlegustu valdastofnun í Íslandssögunni síðan Piningsdómstóllinn var settur á fimmtándu öld.
Sjálfur þori ég engu að spá og sit aðeins spenntur og fylgist með… eins og þið eflaust flest.