hvað merkir orðið göndull??
Orðið göndull hefur fleiri en eina merkingu. Það er notað um vöndul, eitthvað sem er flækt og samansnúið. Það er líka notað í merkingunni ‘gróft band’. Þá er það notað um mann sem er jarðvöðull, það er sóði í vinnubrögðum og umgengni. Göndull er einnig notað um getnaðarlim og út frá þeirri merkingu er sennilega komið að kalla grýlukerti göndla.
Í fornu máli merkti göndull einnig ‘galdrasproti’. Orðið er talið skylt gandur sem meðal annars merkir ‘stafur, staur, prik’ og í fornu máli ‘galdur’.