Jóhannes Páll páfi annar er látinn á 85. aldursári. Hann lést í kvöld ( 2.4.05} klukkan 19:37 að íslenskum tíma, 21:37 að staðartíma í Róm, eftir erfið veikindi og meðal annars hjarta- og nýrnabilun.
Jóhannes Páll, sem fæddist sem Karol Wojtyla í Póllandi, tók við páfadómi árið 1978 og hefur því verið leiðtogi kaþólskra um 27 ára skeið. Fáir hafa setið lengur á páfastóli en hann og enginn páfi hefur víðar farið en Jóhannes Páll heimsótti rúmlega 120 ríki meðan hann sat í embætti.
Heilsu páfa hefur hrakað jafnt og þétt undanfarna daga uns yfir lauk í kvöld. Í tilkynningu Vatikansins segir að mjög hafi sigið á ógæfuhliðina síðastliðna nótt og í dag af völdum þvagfærasýkingar og síðar hás hita. Hafi það á endanum leitt til blóðsýkingarlosts í kvöld og öndunar- og hjartastopps.