Jæja, þessi sem er í stjórnmálafræðinni, ég þekki hann. Og trúið mér, hann veit alveg hvaða fólk þetta er. Málið er einfaldlega að þegar otað er framan í mann myndavél þá stressast maður upp og lætur eins og fáviti. Bara í síðustu viku vorum við í hörkurifrildi hver væri líklegri til að taka við sjálfstæðisflokknum á eftir Davíð, Geir Haarde eða Björn Bjarnsson. Við rifumst um þetta vel og lengi, og rökræddum um hvort þarna væru að takast á borgaraleg og frjálslyn öfl í Sjálfstæðisflokknum og hann vissi vel hvaða menn þetta voru, hvernig þeir tengdust jafnvel inn í ungliðahreyfingarnar og svo framvegis.
Síðan allt í einu sé ég hann í næstu viku halda því fram í sjónvarpi að þeir séu báðir úr Framsóknarflokknum…
Tja, vissulega gerir þetta stöðu mína í rökræðunum betri, en ég held að það sé nærri lagi að afsökun hans eftir á gildi, og hún er sú að þegar otað er að manni svarthvítri mynd úr hálfsmetrafjarlægð, í lýsingu og með myndavél/alþjóð framan í sér, þá eigi maður erfitt með að hugsa skýrt.
Það er allavegna á hreinu að hann veit margfalt meira um stjórnmál en þið öll.