Já ég veit að mörg ykkar takið andköf og veltið þvi fyrir ykkur hvernig í ósköpunum blessaður karlpungurinn ég dirfist að halda slíku fram. Í huga þessa sama fólks er jóladagur þann 25.;þ.e.a.s. á laugardaginn eða daginn eftir morgundaginn.
Það er leiðinlegur misskilningur.
Vissulega er rétt að jólin eru líka þann 25., en þau byrja á morgun, þann 24.
En afhverju?
Hafið þið velt því fyrir ykkur afhverju jólin eru hringd inn klukkann 6 á aðfangadag?
Það er vegna þess að það að halda jól er ævaforn siður.
Það að nýr dagur hefjist við miðnætti er tiltölulega nýtt viðhorf. Lengi vel á Íslandi var miðað við að nýr dagur hæfist klukkan sex. Klukkan sex eftir aðfangadag gekk sá 25. í garð og jólin voru hringd inn. Þá voru allir til messu.
Í mörgum löndum var litið svo á að dagurinn hæfist klukkan 12 að miðnætti (eins og núorðið er yfirleitt gert á Íslandi). Í þessum löndum tíðkast þess vegna að sama skapi að jólin eru hringd inn að miðnætti. Þá gengur fólk til miðnæturmessu og slær síðan til hátíðar snemma daginn eftir.
En á Íslandi hefjast jólin klukkan 6 á aðfangadag.
“Fyrsti í jólum” byrjar því seinni partinn 24. desember og endist til miðnættis þann 25 (því það að nýr dagur sé miðaður við sex er aðeins notað við þetta eina tilefni nútildags. Annar í jólum hefst því tæknilega séð ekki fyrr en um miðnætti þann 25.)
Þetta útskýrir líka afhverju aðeins helmingurinn af aðfangadag er lögboðinn frídagur, meðan hinn helmingurinn er venjulegur vinnudagur.