Jæja, í tribjúti til allra heimskulegu þráðanna hans CrazyTiny þá hef ég ákveðið að stofna hér þráð tileinkaðri reynslu sem ég lenti í og tengist að mínu mati besta íslenska tónlistarmanninum sem hátt hefur náð á heimsmarkaði, en það er Björk Guðmundsdóttir.
Þannig var staða mála að ég var staddur með vinum mínum í hinni smáu borg Okayama í maí síðastliðnum. Við vorum hressir og kátir á leið í karaoke og keilu þegar við ákváðum að kíkja inn í verslunarmiðstöð sem var staðsett í byggingu einni, um 5 hæða hárri.
Á leiðinni út heyri ég kunnuglegan óm í lágt stilltum hátölurum lítils stigagangs í húsinu. Það var greinilegt að ekki var verið að spila sömu tónlistina alls staðar í húsinu, því ég hafði ekki tekið eftir þessari melódíu, og þessari rödd, áður. Reyndist á ferðinni vera hátalari sem spilaði lag af einhverri af ótal plötum Bjarkar Guðmundsdóttur, og ekki bara það, heldur var það á íslensku. Já, herrar mínir og frúr, það var verið að spila lag eftir íslenskan listamann, flutt á íslenskri tungu, í lítilli verslunarmiðstöð lítillar borgar í Japan, landi hátækninnar.
Þess má geta að á karaoke staðnum, sem rekinn var af engu minna fyrirtæki en SEGA, mátti finna lög Bjarkar í lagaúrvalinu.