Tekið af http://www.samtonn.is/tonlist.asp
Hérna er brot af því hvaða rétt þú hefur í sambandi við höfundarétt o.s.f
———–
Hvað má ég?
Má ég hlusta á tónlist á netinu og afrita hana?
Já, þú mátt hlusta og flytja tónlistina yfir til þín (download), en ekki gera afrit nema fyrir sjálfan þig og þína fjölskyldu. Fyrir heimild til að afrita til einkanota á tölvudisk hefur þú greitt sérstakt höfundarréttargjald þegar þú keyptir diskinn.
Má ég setja tónlist inn á heimasíðuna mína?
Já, ef þú hefur sótt um leyfi til þess. Hvort sem þú ætlar að nota tónlistina fyrir sjálfan þig eða í sambandi við viðskipti eða eitthvað annað, þarftu í öllum tilvikum að fá leyfi hjá viðkomandi rétthöfum.
Má ég setja brot úr verkum inn á netið?
Já, ef þú hefur fengið leyfi til þess. Brot úr verkum, óháð tímalengd, eru líka vernduð af höfundalögum.
Má ég tengjast heimasíðum annarra sem eru með tónlist?
Já, ef eigandi heimasíðunnar sem þú tengist hefur áður sótt um leyfi og fengið hjá rétthöfunum. Ef þú tengist heimasíðum, sem eru með tónlist án leyfis eða bjóða til kaups ólögleg hljóðrit (sjóræningjaútgáfur), telst þú meðsekur í ólöglegu athæfi.
Má ég setja nótur inn á heimasíðuna mína?
Já, ef þú hefur sótt um sérstakt leyfi frá höfundinum eða forlagi hans.
Má ég setja MIDI-skrár á Internetið?
Já, ef þú hefur sótt um og fengið leyfi. Í öllum tilvikum þegar þú notar MIDI-skrár þarftu að sækja um leyfi frá höfundunum. Hafir þú ekki sjálfur hljóðritað tónlistina, þarftu líka að fá leyfi frá flytjendunum og hljómplötuframleiðanda ef um hann er að ræða.
Má ég setja upptöku af tónleikunum mínum inn á heimasíðuna mína?
Nei, ekki án þess að fá fyrst leyfi til þess frá höfundum tónlistarinnar og flytjendunum. Leyfið þarf að ná til sjálfrar upptökunnar. Hafa ber í huga að oft koma fleiri við sögu en þeir sem hér hafa verið nefndir, sem einnig þurfa að gefa leyfi sitt.
Má ég setja geislaplötusafnið mitt inn á netið?
Nei, þú mátt ekki einu sinni afrita það inn á tölvuna þína. Ekki heldur einstök lög. Í því felst afritun sem er ólögleg samkvæmt höfundalögum.
Má ég setja tónlist á netið í Mpeg-formi?
Nei, ekki nema þú hafir fengið til þess leyfi frá rétthöfunum. Það leyfi fæst afar sjaldan. Þú mátt við engar aðstæður senda tónlist í stafrænu formi til annarra án sérstaks leyfis.
Mikilvægast er að muna að þú þarft að sækja um leyfi til þrenns konar rétthafa: höfunda, flytjenda, framleiðanda.
Hafðu sömuleiðis alltaf í huga að ólögleg afnot af tónlist geta haft í för með sér ýmisskonar viðurlög, t.d. skaðabætur til rétthafa, lögbann og sektir.
Mundu - í tengslum við leyfi
Að skilmálar rétthafanna og aðferðir við að veita leyfi til að nota tónlist á netinu geta verið breytilegir. Ef þú ert í vafa um eitthvað, er rétt að leita nánari upplýsinga.
Að þú þarft að veita upplýsingar um hver tilgangurinn er með afnot af tónlistinni. Ef tónlistin tengist á einhvern hátt trúarbrögðum, stjórnmálum, klámi eða auglýsingum þarf að afla sérstaks leyfis.
Að þegar þú hefur fengið leyfi til að nota tónlist á netinu, ber þér skylda til að nafngreina þá sem hlut eiga að máli. Það á við um bæði skapandi og túlkandi listamenn.
Ef þú vilt fá að nota eitthvað fleira á netinu, svo sem umslag, ljósmyndir, grafík, brot úr kvikmyndum og þess háttar, þarftu líka sjálfur að sækja um leyfi til þess hjá rétthöfunum.
Það er ævinlega á þína ábyrgða sem eiganda heimasíðu eða notanda tónlistar á netinu að gengið hafi verið frá nauðsynlegum leyfum.