Málið er að þessir ákaflega spöku spaðar voru að brjóta lög lýðveldisins. Og ekki nóg með það, heldur gerðu þeir það fyrir opnum dyrum og hreiktu sér af því. Þessir miðlarar voru auglýstir á vefsíðum, og aðgangur að þeim var opinn öllum (tja, eða svotil öllum). Og þeir þurfa engar heimildir til að rannsaka hluti sem eru á almannafæri (sem að þessir miðlarar voru). Hinsvegar mega þeir ekki brjóta lög lýðveldisins við rannsókn sína, og þeir mega ekki tæla menn til lögbrota (það að tengjast miðlurunum með vafasamt efni myndi brjóta þessar reglur. Hinsvegar gætu þeir sóst eftir því að fá leyfi hjá rétthafa til þess að nota efni sem þeir hafa ráðstöfunarrétt yfir, til þess að nota það til að komast inn á miðlarana, en þá þyrftu þeir einnig að gæta þess að enginn gæti náð í það frá þeim, því þá mætti mögulega hanka þá á því að þeir væru að leiða menn til afbrota). Það eru hinsvegar til aðrar mjög einfaldar leiðir til að rekja þetta. Íhugið þetta:
Vistföng miðlarana voru þekkt, enda auglýst með áberandi hætti á vefsíðu umsjónarmanna. Lögreglan fer til dómara og leitar eftir því að fá hjá honum heimild til að “hlera” þau samskipti sem þar fara fram. Þar sem samskiptaforskriftin sem DC notast við fer öll fram með hreinum texta (eng. clear-text), þá er ekki erfitt að skrifa forritling sem vinnur úr þeirri umferð sem þar fer í gegn. Með því er hægt að komast meðal annars að því hverjir eru þar inni, og hve miklu efni þeir eru að deila með öðrum. Tökum þar út nokkra sem eru stórtækir, göngum úr skugga um að það efni sem þeir bjóða uppá sé í eigum umbjóðenda stefnanda. Að því loknu má fara aftur til dómara og fá heimild hjá honum til að fylgjast með gjörðum hans, þá er einnig hægt að fá heimild til að fara til netsala hans og krefjast þess að fá upplýsingar um hver sé þar á ferð.
“Lather, rince, repeat.”
“Voila!”, eftir nokkurn tíma þá ertu búinn að kortleggja bæði hverjir þetta eru, og með hvaða háttu þeir verða sér út um efni, og allt er framkvæmt lögum samkvæmt. Þá er einungis eftir að heimsækja viðkomandi og krefja þá svara. Ef lukkan er með þeim, þá munu þeir fá upp úr þeim hver uppruni þessara ólöglegu afrita er.
Ég efast um að í framhaldi af þessu fari þeir að eltast við Smá-Jóna, heldur verða þessir 12, og máski aðrir kóngar látnir dingla, öðrum til varnaðar. Hinsvegar væri það stór og ljúfur aukabiti ef þeir gætu komið klóm í einhverja af þeim sem stunda þá iðju að “framleiða” þetta efni, og komast þannig fyrir vandamálið við rótu þess.
Annað hefur einnig vakið mikla kátínu hjá mér, það er að fylgjast með þessum ankannalegu glæpamönnum (já, þið eruð glæpamenn) reyna að afsaka gjörðir sínar. Er íslenskt samfélag virkilega orðið það siðblint að fólk haldi að það komist upp með lögbrot af því að [setjið afsökun hér (mínar uppáhalds afsakanir eru: "Skífan okrar", "Netþjónustuaðilar okra", "Ég er að stela frá þeim ríku (Skífunni) til að gefa þeim fátæka (mér)")].
Ég legg til að þið hættið þessu væli, og horfist í augu við staðreyndir málsins. Þessir aðilar frömdu lögbrot, og munu því þurfa að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna.
Hörðu