Ekki alveg rétt…
Það er málfrelsi og skoðanafrelsi á Íslandi.
En, þú berð fulla ábyrgð á því sem þú segir.
T.d. er ekki óalgengt að opinber ummæli séu dæmt dauð og ómerk í réttarsal ef sá sem þú talar um kærir fyrir ærumeiðingar.
Varðandi það að tal um tóbak og kynþáttahatur sé “bannað” þá er það líka rangt og ég skal sanna það hér:
Tóbak er hættulegt, en það er réttur hvers og eins einstaklings að reykja ef hann vill. Ég mæli ekkert sérstaklega með því að þú byrjir að reykja, en ef þú vilt það, þá ætla ég ekki að stoppa þig. Ef þú reykir nú þegar, þá máttu alveg halda því áfram mín vegna, svo lengi sem reykur fer ekki ofan í mín lungu (það er líka réttur minn að fá að anda að mér fersku lofti). Það væri sjálfsagt ódýrara fyrir þjóðfélagið ef þú hættir (heilbrigðiskostnaður og allt það) en ríkið hefur ekkert með að banna þér að setja þetta eitur ofan í þig frekar en brennivín, svo lengi sem þú ert orðinn lögráða einstaklingur sem hefur þar með rétt til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf.
Ef út í það er farið þá hefur ríkið heldur engan rétt til að banna þér að nota hass, maríjúana, heróín, kókaín, krakk eða hvaða eitur sem þér dettur í hug að nota. Það er þinn réttur sem einstaklingur að ákveða sjálfur hvað þú gerir við eigin líkama.
OK, ef þessi umræða er bönnuð, þá bíð ég spenntur eftir að löggan verði send á mig.
Varðandi kynþáttahaturs umræðu, þá segi ég þetta:
Það er skoðanafrelsi á Íslandi, sem þýðir að þú mátt halda í ranghugmyndir alveg eins og þér sýnist. Þú mátt halda því fram að svartir séu latir, mexíkanar séu þjófóttir, það sé lykt af ítölum, að frakkar séu alltaf óbaðaðir, að rússar séu alltaf fullir, að asíubúar séu lélegir bílstjórar, gyðingar séu fégráðugir, arabar séu geðveikir hryðjuverkamenn. Þetta eru allt algengar “skoðanir”. Hvort sem þú getur sannað þetta eða ekki skiptir engu máli, þú átt rétt á þínum skoðunum og hefur rétt til þess að viðra þínar skoðanir opinberlega. En þú verður að taka ábyrgð á ummælum þínum. Ef einhver ofantalinna hópa móðgast, þá á hann líka rétt á því að fara fram á að ummælin verði dæmd dauð og ómerk.
Ég vil taka það fram, af augljósum ástæðum að ofantaldar kynþáttalýsingar eru ekki mínar skoðanir, heldur algengar stereótýpur sem heyrast oft, þó rangar séu.
Jæja, nú er ég búinn að ræða tóbaksneyslu, fíkniefnaneyslu og kynþáttahatur.
OK, hér eru MÍNAR skoðanir á ofantöldu og einhverju meira:
Það á ekki að banna reykingar, valfrelsi einstaklinga er dýrmætara en svo.
Það á að lögleiða öll fíkniefni, það snýst líka um valfrelsi.
Það á að hætta að kalla fólk nýbúa. Orðið nýbúi er niðrandi orð sem á að vera löngu hætt að nota. Íslendingur er Íslendingur er Íslendingur. Skiptir engu hvar hann fæddist eða hvenær hann varð ríkisborgari. Ef hann er íslenskur ríkisborgari, þá er hann Íslendingur. Punktur.
Það á að afnema skyldunotkun öryggisbelta og dagljósanotkun, enn og aftur snýst það um valfrelsi einstaklingsins.
Það á að leyfa klámmyndir í sjónvarpi og á videoleigum (já, ég veit að leigurnar eru samt með þær, en þeir eiga ekki að þurfa að fela þær).
Það á að lögleiða vændi. Það kemur ríkinu ekkert við hvað tvær fullorðnar manneskjur ákveða að gera sín á milli. Í heimi þar sem ALLT er til sölu, er óþarfi að undanskylja kynlíf. Þar fyrir utan að það er fullt af gaurum sem annars fengju aldrei að ríða.
Það á að afnema geisladiskaskattinn hans Ragga Kjartans (sem ég bar virðingu fyrir þar til hann fór að væla útaf tómum geisladiskum, nú finnst mér hann bara vitleysingur og ég hef fullan rétt til að segja það). Heimskulegri löggjöf hefur ekki farið gegnum þingið í áratugi. Má ekki líka skattleggja auðan pappír og greiða í rithöfundasamtökin á þeim forsendum að það sé hægt að afrita bækur með ljósritunarvél? Og afhverju fá hugbúnaðarframleiðendur ekkert af skattinum, bara tónlistarmenn?
Það á ekki að banna fóstureyðingar. Ríkið getur ekki neytt konur til að ganga með börn ef þær ekki vilja það.
Það á að leyfa sjálfsmorð. Mitt líf, mitt val. Hef aldrei skilið afhverju það er ólöglegt (fæ ég sekt ef mér tekst það?)
Það á að lögleiða líknardráp. Ef ég er dauðsjúkur og vil drepa mig frekar en að þjást áfram, en er of máttfarinn til þess, þá vil ég ekki að ríkið setji þann sem hjálpar mér, í fangelsi. Fyrir þá sem vita hver Jack Kevorkian er, þá lýsi ég því hér með yfir að hann á allan minn stuðning og á alls ekki að sitja í fangelsi.
Það á ekki að leyfa dauðarefsingar neins staðar.
Jæja, nú hlýt ég að vera búinn að ná að móðga allavega einn lesanda… þá er kominn tími til að koma sér af sápuboxinu :)
PS. ef einhver sér sig knúinn til að mótmæla einhverju hérna, þá hefur hann/hún fullan rétt til þess, rétt eins og ég hef til að röfla þetta.
Undirskriftir með öðru en nafninu manns eru hallærislegar.