Fyrir um 5 milljónum ára komu fram fyrstu forfeður nútímamannsins. Í dag lifir nútímamaðurinn í neysluheimi. Tæknin færir okkur allt og við tökum því fegins hendi, jafnvel þótt við þurfum mörg að strita baki brotnu til að geta notið lífsgæða nútímans. Aldrei sem fyrr nýtir maðurinn sér tæki og tól og fjölmiðla til að gera sér lífið auðveldara… eða hvað?

Við erum svo upptekin af því að notfæra okkur tæknina að við erum orðin fangar hennar eins og apar í búri. Við látum stjórnast af boðum og bönnum neytendamarkaðarins, sem keppist við að selja okkur allt sem við þurfum, eða réttara sagt það sem markaðurinn segir að við þurfum. Börn læra að segja “makkdónals” áður en þau læra að segja “matur”, 13 ára stúlkur klæða sig eins og tékkneskar hórur og gefa þannig til kynna eitthvað sem þær ættu ekki að gera sökum aldurs. Þetta fá þær úr sínum helstu fyrirmyndum; Britney Spears, Christina Aguilera, Shakira, “okkar eigin” Birgitta í Írafár og þannig mætti lengi telja. Fyrirmyndirnar koma að sjálfsögðu frá fjölmiðlunum, PoppTíVí kennir þeim ungum að það sé flott að vera fáklædd og reykja hass og jafnvel neyta annara hættulegri eiturlyfja.

Þessu má að hluta til kenna foreldrunum. Foreldrarnir eru undir þrýstingi að leyfa börnum að hafa sjónvarp inni hjá sér og hafa oftast ekki tíma til að fylgjast annars vegar með því sem börnin þurfa og hins vegar hvað þau eru að fá. Allt er leyft og ekkert bannað. Foreldrar gefa jafnvel 8-9 ára gömlum dætrum sínum efnislitla magaboli og litlar gallabuxur sem virðast vera mikið notaðar en eru í raun nýjar. Með þessu eru hlutverkin kyngerð enn frekar og börnin ung gerð að kynverum, sem er áhættusamt og gæti jafnvel kvatt til ljótra hugsana hjá miðaldra pervertum.

Taktu þér tíma til að íhuga þetta. Við getum gert samfélagið okkar að betra samfélagi. Oft getur vont versnað. Látum það ekki gerast og sýnum ábyrgð. Hamingjan felst ekki í peningum, þeir veita ekki lífsgæði á borð við félagslegt öryggi og samheldni fjölskyldna. Gerum betur!
——————————