Ég tók eftir því í gærkvöldi að Aðalstætið í Reykjavík hefur hlotið annað nafn: Klúbbgata. Í það minnsta stendur það skrifað á götuskilti sem fest hefur verið upp á skemmtistaðinn Vídalín. Þar stendur “Aðalstæti, klúbbgata”. Ég varð svolítið undrandi. Hverjum skyldi hafa dottið þetta í hug? Hverir sjá um þessar götumerkingar og hvað gekk þeim til? Ætli ég sé einn um þá skoðun að “klúbbgata” sé óviðeigandi heiti á götu í miðborg Reykjavíkur? Eiginlega finnst mér tvennt gera hið nýja nafn götunnar óviðeigandi. Annars vegar er það ósmekklegt, en hins vegar er það rangnefni því það er ekki nema einn klúbbur í götunni eða kannski tveir. En það þarf líklega ekki nema einn klúbb í götuna til þess að gatan geti fengið að heita klúbbgata, alla vega ekki hérna á Íslandi. Hér þarf jú ekki nema breiða gangstétt til þess að tilefni sé til þess tala um nýtt torg. Þannig er það á Laugaveginum fyrir framan Kjörgarð (þar sem Hagkaup voru í eina tíð til húsa). Þar breikkar ganstéttin um það sem nemur þremur eða fjórum gangstéttarhellum og viti menn, þar hefur verið skellt upp skilti til þess að merkja rækilega hið nýja Laugatorg. Laugatorg! Já, það skal ekki þurfa mikið til að búa til torg á Íslandi. Sem betur fer kunnum við Íslendingar samt að byggja verslunarmiðstöðvar. Okkur dytti líklega seint í hug að byggja verslunarmiðstöð utan um tvær eða þrjár verslanir. Nei, við byggjum sem betur fer alvöru verslunarmiðstöðvar. Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir þær.
___________________________________