Bónus er ódýr búð og notaleg þar finnst mér gott að koma með mömmu minni og horfa á allar hinar mömmurnar tæta í hillunum. Gulur er líka uppáhaldsliturinn minn og ég ætla að stofna pólitískan flokk sem er gulur þegar ég verð orðinn stór.
Vitanlega verða einhver skilyrði ef þú óskar þess fá lykilstöðu í flokknum. Í fyrsta lagi verður þú að vera með guluna því þá eru miklar líkur á því að lífdagar þínir séu færri en hjá meðalmanni. Þá er smá sjéns á því að þú getir haft áhuga á bónusflokknum svo lengi(stutt) sem þú lifir og síðan þarf ég ekki að borga þér laun nema í stuttan tíma.
Bónusflokkurinn á að byggjast upp á sáraeinföldum prinsippum. Við sem stjórnum flokknum verðum í gulum fötum og kaupum okkur ódýra gula maka og leikum okkur gjarnan að því að vera með gula yfirstrikunarpenna á fundum þar sem við strikum yfir einstaklinga sem verða í vegi fyrir okkur og sendum þeim gul spjöld og rukkum þá fyrir eitthvað sem við verðum búnir að eignas, með dugnaði að sjálfsögðu.
Við gefum út gul kort og hver sá sem ekki fær gula kortið má ekki labba úti þegar það er sól nema að hann borgi okkur visst marga gula peninga því sólin er jú gul og við verðum með einkarétt á öllu guliríinu í sólkerfinu, því ef við ætlum að hafa sómasamlegt hagkerfi þá verðum við að miða okkur við það sólkerfi sem við lifum í, annað væri hreinlega tepruskapur og smáborgaraháttur.
Auðvitað verða alltaf til svona hippalegir menntskælingar sem taka þátt í ræðuhöldum á síðkvöldum og stunda leiklist og pælingar í frístundum en við gerum pláss fyrir þá á Þingvöllum í Almannagjá sem við málum gula og leyfum þeim að tala þar og þvaðra þangað til þeir verða geðveikir á eigin skoðunum því bæði stuðlar gult að geðveiki og síðan hjálpar bergmálið töluvert. Þetta fólk verður síðan bannfært og þar mun hótelstjóri Hótel Sögu hjálpa okkur því að hann er svo slunginn við að banna fólki eitthvað kurteislega.
Síðan munum við gera gula styttu af Melló Jélló , sem verður okkar talsmaður út á við, og á henni munum við fá einhvern gular pennamann til þess að semja trúarbrögð um svo að við getum haft arð að gulum steinhúsum með turnum út um allan bæ.
Þetta verður vinalegt gult bónussamfélag þar sem verða birtar margar myndir af okkur í stjórninni og mun sú hamingja sem við upplifum við að gula allt samfélagið og eignast það smitast í gegnum gulu plakötin til fólksins og það mun verð hamingjusamt yfir því að við skulum eiga allt og sjá til þess að veröldin geti alltaf verið gul eins og sólin.
Síðan verða alltaf allir glaðir þegar þeir fá heimsókn þar sem ég kem út í gulu frystihúsin úti á landi og brosi gulu brosi til allra og segi hress við fólkið“ Mikið eruð þið öll saman snjöll og fín, þessi fiskvinnsla er frábær” Síðan mun ég sprautu gulu mauki yfir alla og segja “ Bestur þykir mér þó bónusinn, bestur þykir mér þó bónusinn trallarallaríííí”
Síðan dey ég og þið horfið á sólina og grátið gulum tárum “ Þar misstum við bónusgrís, en kannski á hann litla bónusdís”
Hvernig líst ykkur á