Kæru Hugarar,
Það er mismunandi hvað fólk vill læra og vinna við í framtíðinni. Langflestir Íslendingar hafa aðgang að menntastofnunum þar sem þeir geta lært sitt nám í sínu heimalandi. Þó eru nokkrar stéttir sem eiga erfiðara en aðrar með á afla sér menntunar. Ein þeirra er leiklist/kvikmyndagerð.
Listaháskóli Íslands hefur um árabil skapað sér góðan grunn og hefur unnið frábært starf í garð listarinnar. Leikarar geta útskrifaðast þaðan með BA gráðu en það kemur upp á mót að aðeins eru teknir inn 6-10 nýnemar á öðru hverju ári (rúmlega 150 nemendur sækja um hverju sinni). Nemendur með áhuga á leikstjórn, handritsskrifum og fræðimennsku geta útskrifast með BA gráðu af námsbrautinni „Fræði og framkvæmd“ en þó svo að þeir útskrifist með mjög sterkann grunn þá útskrifast þeir ekki sem leikstjórar eða sem handritshöfunar. Kvikmyndagerðarmenn eiga einnig erfitt með kynnast dýpri hliðum listarinnar hjá LHÍ.
Þó svo að Listaháskóli Íslands sé ómissandi þáttur í íslenskri menntaflóru þá er þar boðið uppá sérstaka gerð af námi sem að ekki hæfir öllum og á sama tíma komast mun færri að en vilja.
Þar kemur Kvikmyndaskóli Íslands til hjálpar. Kvikmyndaskólinn er með sér brautir fyrir leikstjórn/framleiðslu, handritsgerð/leikstjórn, leikara og tæknimenn. Eins og staðan er í dag útskrifast nemendum ekki með gráður frá skólanum enda er skólinn ennþá að vaxa og dafna en þeir útskrifast með mjög sterkann grunn og þekkingu á kvikmyndagerð eftir fjögra anna fagnám. Kennarar og nemendur eru stoltir af starfi skólans og var starf hans viðurkennt núna fyrir skömmu þegar hann var tekinn inn í CILECT (Alþjóðasamtök kvikmyndaskóla). Þegar skólinn var tekinn inní þessi samtök gerði Nik Powell sem er skólastjóri National Film and Television School í Beaconsfield við London úttekt á starfi skólans og fékk skólinn „Highest recommendation“ hjá honum. Því er öruggt að Kvikmyndaskóli Íslands á fyrir sér langa og glæsta framtíð svo lengi sem fjármagn leyfir.
Ef þessir skólar halda báðir áfram að vera starfrækir getum við verið stolt af því að geta boðið þeim sem hafa áhuga á leiklist og kvikmyndagerð ekki bara kost á menntun hér á landi heldur einnig val um hvernig þeir vilja nálgast þessa menntun. Ef að fjármagn leyfir.
Stjórnvöld virðast ekki alveg veita starfi Kvikmyndaskóla Íslands alveg fullan skilning og því hefur verið sett í gang undirskriftasöfnun þar sem finna má myndband þar rektor Kvikmyndaskólans Hilmar Oddsons flytur ávarp. Ég hvet ykkur til að kíkja á þetta (http://www.ipetitions.com/petition/kvikmyndaskoliislands/) og veita okkur stuðning . Ég vona að ég geti ásamt á annað hundrað nemenda skólans mætt til starfa í lok sumar.
„ Við teljum okkur vera orðin algjörlega fullorðins og bara samkeppnisfær við það sem gerist best erlendis“ – Hilmar Oddson, rektor KVÍ
„ Já og loksins þegar þið eruð orðin það þá er kannski sárt að þurfa að standa í því að berjast fyrir lífi skólans.“ – Heimir á Bylgjunni
„Ef þetta land hefur ekki efni á að útskrifa 50 manns með einhverja bestu menntun fáanlega í kvikmyndagerð, á meðan við höfum efni á því að útskrifa hálfmenntaða 200 innheimtulögfræðinga á ári, þá er illa komið fyrir þessari þjóð" – Þráinn Bertelsson, leikstjóri og alþingismaður.
Bestu kveðjur,
Vonandi nýnemi Kvikmyndaskólans,
Karl Pálsson