Af forvitni vil ég spyrja ykkur hve mörg ykkar þekkja til eða vita af rétti ykkar til mánaðarlegra fjárframlaga ('áframhaldandi meðlag') frá foreldri sem þú býrð ekki hjá frá átján ára til tvítugs svo lengi sem þú ert í fullu námi?
Ég hef ekki séð neina umræðu um þetta né heyrt nokkurstaðar á netinu eða annars staðar. Ósköp fáir virðast vita af þessu og enn færri nýta sér þetta.
Hægt er að sækja um þetta hjá sýslumanni - þar eru samningar þar sem þú og foreldri (sem þú býrð ekki hjá) geta undirritað og sent inn.
Ef að foreldri þitt er ekki til í að borga þetta af fúsum og frjálsum vilja geturðu beðið sýslumann um að úrskurða um það, ef foreldrið er greiðsluhæft og þú ekki með há laun (tekið er mið af þínum launum og launum foreldris). Þú getur meira að segja sótt um þennan styrk afturvirkt um eitt ár eða lengra við sérstakar aðstæður.
Meðlag er rúmlega 21.000 krónur á mánuði. Sú upphæð frá 18 ára aldurs til tvítugs er yfir 500.000 krónur sem þú átt að fá lögum samkvæmt svo lengi sem þú sért í fullu námi (sem flestir eðlilega eru á þessum aldri og geta ekki unnið fyrir sér á meðan).
Ef þú býrð hvorki hjá móður þinni né föður getur þú sótt um menntunarframlag frá báðum foreldrum (tvöfalt meðlag greitt til þín mánaðarlega).
Ef foreldrið er ekki greiðsluhæft (of lág laun miðað við barnsfjölda sem er á framfærslu þess) þá getur þú sótt um menntunarframlag frá Tryggingarstofnun.