Oft heyri ég þá sem efast um tilvist Guðs, eða eru jafnvel lausir við alla trú á Guð, beina spurningum að kristnum mönnum sem eiga að fá þá til að endurskoða trú sína á Guði, spurningar sem kristnir menn vilja helst ekki hugsa um, hvað þá svara. Spurningar sem þeir hafa ekki svör við nema sínar eigin getgátur og hugmyndir, sem geta því miður ekki talist góð eða gild rök. Sko, ég held…ég trúi…ég tel… Er ég var sannkristin manneskja gjörsamlega þoldi ég ekki þessar yfirheyrslur frá trúleysingjum og forðaðist þær eins og heitan eldinn. Ég skildi ekki af hverju þetta fólk þurfti að spyrja mig svona óþægilegra spurninga og af hverju það gat ekki bara leyft mér að lifa í ranghugmyndum í friði. Samt var náttúrulega ekkert að því að ég skildi, út frá mínum ranghugmyndum, telja að Vottar Jehóva væru nískt pakk, að múslimar væru hryðjuverkamenn, gyðingar væru alltaf að leika einhver fórnarlömb (sem öllum væri hvort eð er alveg sama um) og að Vísindakirkjufólkið væri bara klikkað. Ég mátti það auðvitað alveg, því það var í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Ég sýndi heldur ekki þessu fólki hvað mér fannst um það, ég vorkenndi þeim að trúa svona óheppilegum hlutum og að vera svona öðruvísi. Ekki bara vorkenndi ég brenglaða og óheppna fólkinu, heldur fór ég einnig í kirkju á hverjum sunnudegi, ég fór með bænir og trúarjátninguna á hverju kvöldi áður en ég lagðist til svefns, Biblían var ávallt á náttborðinu mínu og ég gekk með kross um hálsinn til að minna sjálfa mig á að Jesús dó kvalarfullum dauðdaga á krossinum fyrir syndir mínar (sem ég reyndar bað hann ekki um). En gerði ég þessa hluti af því mig langaði til þess? Gerði ég þessa hluti því ég elskaði Guð af öllu hjarta og vildi tjá ást mína á honum með þessum gjörðum? Naut ég þess? Nei. Satt best að segja fannst mér hundleiðinlegt í kirkju (ég þorði samt ekki að viðurkenna það fyrir sjálfri mér, því Guð er allsstaðar, líka í hugsunum mínum), mér fannst þreytandi að fara með bænir og Biblían tók óþarflega mikið pláss á náttborðinu mínu. Ég gerði þessa hluti af því ég þorði ekki öðru, ég óttaðist eilífa glötun, vist í forgarði vítis og mest af öllu óttaðist ég að Guði myndi finnast ég andstyggileg, syndug og, það sem verst var, vanþakklát fyrir frelsunina frá syndum mínum. Ofurheilbrigður hugsunarháttur og heilaþvottur þar á ferð.
Klassíska spurningin er gvuð góður? fór afar mikið í taugarnar á mér. Ef gvuð er góður af hverju er þá sveltandi fólk um allan heim, af hverju lenda börn í kynferðisofbeldi, af hverju deyr fólk fyrir aldur fram, af hverju kvelst fólk, af hverju lagar gvuð þetta ekki? Hann á jú, að vera almáttugur. Kristlingurinn segir að gvuð sé að láta reyna á trú fólks, að lífið sé ekki sanngjarnt og þegar að allt komi til alls, þá er einhver tilgangur á bak við þetta allt saman. Trúleysinginn segir að það sé annað hvort það að enginn sé gvuð eða…ef gvuð er til þá er honum nákvæmlega sama um ykkur. Sem hljómar fullkomlega rökrétt fyrir mér. Af hverju ætti einhverjum sem pyntar sinn eigin son til dauða (sem er hann sjálfur líka, sannur sadó-masókisti þar á ferð) ekki að vera sama um restina af heiminum? Sem leiðir mig að því sem ég sagði áðan, kristlingar segja að það sé einhver tilgangur í þessum aðgerðum gvuðs - væntanlega sá að láta fólki líða illa. Ef ég níðist á einhverjum í þeim tilgangi að láta þeim aðila líða illa þá má gera ráð fyrir að mér sé í nöp við hann. Þannig að…líkar gvuði illa við ykkur eða er hann ekki til? Tilvist gvuðs verður aldrei sönnuð eða afsönnuð, þess vegna er þetta trú. Einmitt. Þetta er trú, ekkert annað. Nýlega neitaði Þjóðkirkjan, sú heilaga stofnun, 9% niðurskurði. Allir í samfélaginu eru að skera niður hjá sér, allir. En Þjóðkirkjan, unglingurinn sem neitar að fara að heiman og komast af á eigin spýtur, segir nei. Á þeim grundvelli að velferð samfélagsins sé í húfi. Þau telja sig greinilega jafnmikilvæg og mennta- og heilbrigðiskerfi landsins. Annað hvort er fólk kirkjunnar uppfullt af illa ígrunduðum ranghugmyndum eða það er virkilega mikill (og ófyndinn) húmor í þeim. Velferð samfélagsins í húfi? Kunnið þið annan?
Eins og ég er búin að vera að hamra á þá er kristin trú, í stuttu máli sagt, trú á yfirnáttúrulega veru sem er greinilega illa við okkur. Trú sem veldur því að þeir sem aðhyllast hana telji sig betri en þá sem gera það ekki og taka ekki neinum sönsum þegar reynt er að tala um fyrir þeim. Í dag er ég sannfærður trúleysingi, ég er af öllu hjarta sannfærð um að það er ekkert æðra lífi á jörð og sé þar af leiðandi fyrri lífsviðhorf mín í öðru ljósi. Ég fer ekki í kirkju nema ég neyðist til (þá ekki af ótta við að brenna í vítislogum um ókomna eilífð), ég fer ekki með bænir, Biblían er uppi í hillu en það er bara því ég hendi ekki bókum og krossinn sem ég gekk með…ég held að ég hafi gefið vinkonu minni hann. Ég sé núna að vorkunn er ekkert nema trú á að ég sé betri en sá sem ég vorkenni. Þetta er ekki gagnkvæm virðing, þetta er yfirlæti falið sem góðvild. Velferð samfélagsins er í húfi á meðan kirkjan liggur á spena ríkisins. Þetta er hugsunarhátturinn sem þau troða í mann frá fæðingu, gegnsýrður heilaþvottur og blinda. Fyrir þetta fá skósveinar gvuðs hálfa milljón í byrjunarlaun. Hvað er kennari, sem kennir börnum samfélagsins að lesa og skrifa, með í byrjunarlaun? 195.000 krónur. Það er í lagi að skera niður hjá þeim og öllum öðrum vegna kreppunnar, en ef byrjunarlaun prests, mögulegs sendiboða mögulegrar yfirnáttúrulegrar veru sem líkar ekki við okkur, minnka um einhver örfá prósent þá er voðinn vís. Heilaþvotturinn sem hvert mannsbarn hér á landi fær í vöggugjöf frá ríkinu gæti minnkað aðeins.
JESÚS NEI. Hver maður hlýtur að sjá að kirkjan má ekki við neinum niðurskurði. Að ætla sér að heilaþvo lítil börn yfir á þeirra band áður en þau verða nógu þroskuð til að hafa vit á að trúa ekki öllu sem þeim er sagt er náttúrulega gríðarleg erfiðisvinna. Sem enginn ætti að fá minna en hálfa milljón á mánuði fyrir. Svo er auðvitað augljóst að aðeins kirkjan getur leitt þjóðina úr fjárhagserfiðleikunum sem hún er í núna. Kristin trú mun leysa öll vandamál þjóðarinnar og þeir sem nota eitthvað annað en þessa trú að leiðarljósi í gegnum lífið munu enda á botninum með ekkert. Svo fara þeir til helvítis.
…Er hugsunarháttur þeirra sem er búið að heilaþvo.
Ekki misskilja mig, ég er vissulega að skrifa um kirkjuna og trúnna á afar kaldhæðinn hátt, en hver og einn má trúa því sem hann vill mín vegna - þó svo að ég sjái ekkert að því að ég leggi mitt af mörkum til að reyna að af-heilaþvo fólk, ríkinu og öðrum algerlega að kostnaðarlausu. Trúið því sem þið viljið, trúið því sem lætur ykkur líða vel, trúið því sem ykkur finnst fylla líf ykkar af tilgangi og vellíðan. En ekki ætlast til þess að kirkjan fái fimmþúsund milljónir á hverju ári úr tómum fjárhirslum ríkisins, á meðan það er verið að skera niður hjá öllum öðrum í landinu. Á meðan önnur trúfélög þurfa að halda sér uppi sjálf. Á meðan trúleysingar fá ekki að hafa trúleysi sitt í friði - og eru kallaðir ógn við samfélagið af biskupi Íslands, sem fær fyrir það tæpa milljón á mánuði. Á meðan sumir þegnar samfélagsins hafa ekki efni á mat, húsnæði eða menntun.