Undanfarna daga hef ég verið að lesa Fimm mínútna Biblíuna. Bókin á að gera efni Biblíunnar mjög aðgengilegt og á að vekja áhuga hjá lesendanum á að lesa raunverulegu Bíblíuna. Farið er yfir helstu sögurnar úr Biblíunni í tiltölulega stuttu máli og hægt er að finna athugasemdir frá höfundinum sjálfum við margar sögurnar. Mér líkar alls, alls ekki við þessa bók. Það er þó ekki (einungis) út af því að mér líkar ekki við raunverulegu Biblíuna, heldur því miðað við uppsetningu, orðalag og athugasemdir höfundar mætti ætla að bókin sé ætluð illa gefnum tólf ára börnum. Auk þess sem það tekur alls engar fimm mínútur að lesa bókina, svo að titillinn “Biblían for dummies” væri mest viðeigandi. Það fór líka fyrir brjóstið á mér hvernig það sé eins og höfundurinn sé að reyna að “mýkja” lesandann upp og fá hann þannig til að aðhyllast kristna trú - jákvæðni og “hvatning” höfundarins er fram úr öllu hófi. Ég þurfti nokkrum sinnum að taka mér hlé til að ná úr mér kjánahrollinum sem vék oftar en ekki að mér við lesturinn. Mér til gamans dundaði ég mér við að skrifa hjá mér sumar athugasemdir höfundarins, því þær eru flestar - ef ekki allar - vægast sagt fáránlegar. Núna hef ég sigtað úr þær allra fáránlegustu og ætla að fara yfir þær hér og skrifa mínar eigin hugleiðingar við þær.
Ég þekki mann sem ræktar jólatré. Eitt sinn var ég í heimsókn hjá honum og á göngu okkar úti í skóginum fann hann visna grein á jörðinni. “Taktu nú eftir”, sagði hann og beygði sig niður eftir greininni. Síðan gekk hann að sterklegu grenitré, dró fram bor og gerði gat í stofn þess. Að því búnu kom hann visnu greininni fyrir í gatinu og gekk tryggilega frá henni með sérstöku límbandi.
Þegar við komum aftur að trénu ári síðar hafði greinin tekið við sér og var farin að grænka. Hún var lifandi!
Þetta er kjarni málsins. Jesús er tréð. Við erum eins og visna greinin sem lá á jörðinni. Guð hefur tekið okkur að sér og grætt okkur á Jesú. Við lifum vegna hans og aðeins vegna hans.
Ef við erum í honum þá er hann í okkur. Þá lifum við.
Já. Byrjum á því að ég á frekar erfitt með að trúa að greinin hafi “lifnað við” eftir að hafa verið fest á lifandi tré með límbandi…En hvað um það, það er feitletraði hlutinn sem truflar mig. Ef þessir hlutir væru raunverulega sambærilegir, er það þá ekki Jesús sem ætti að vera greinin og við tréð? Það er jú, Jesú sem er löngu dauður, ekki við. Ergo, hann lifir vegna okkar, ekki öfugt. Ef það væru ekki einhverjar árlegar hátíðir til að minnast hans væri hann bara einhver gaur sem var krossfestur fyrir 2000 árum.
Það er í raun mjög mikilvægt að hugsa aftur og aftur “Ég er sauður!” (auðvitað í jákvæðri merkingu!!) Því ef við gleymum því þá gæti svo farið að við héldum að við þyrftum ekki á neinum hirði að halda. Þá væri líka stutt í að við gleymdum því að við þurfum á frelsara að halda og þá væri illt í efni.
Þetta er án vafa ein heimskulegasta alhæfing sem ég hef heyrt. Lífi mínu hefur hingað til vegnað ágætlega án þess að ég hafi haft Jesús sem leiðsögumann. Það sama gildir um marga aðra. Mannkynið væri glatað ef það yrði að hafa einhvern hirði eða frelsara. Þeir sem telja að þeir geti ekki farið í gegnum lífið án þess að Jesú leiðbeini þeim í gegnum það eru veikgeðja og jafnvel viljalausir. Ætli höfundur Fimm mínútna Biblíunnar myndi ekki reyna að benda mér á að það er skárra, jafnvel betra, að vera viljalaus frekar en kærleikslaus. Því trúleysingjar eru náttúrulega lausir við allan kærleik, þið skiljið.
Kjarninn er sá að það á ekki að kosta neitt að tilbiðja Guð.
Ekki? Byrjunarlaun presta eru hálf milljón. Svo rukka þeir hvern og einn aukalega fyrir skírnir, fermingar, giftingar og jarðarfarir. Þeir fá líka ýmis önnur fríðindi, sem Þjóðkirkjan borgar með þessum fimmþúsund milljónum sem hún fær á hverju ári frá ríkinu. Þarf að segja meira?
Guði er ekkert ómögulegt.
Núna gæti ég komið með heillanga ræðu um allt það slæma í heiminum sem Guð hefur látið ógert að laga, en ég nenni því ekki, svo að ég ætla bara að segja “Jú”.
Guð er hlynntur kynlífi - hvers vegna hefði hann annars skapað það? Hann hvetur til ánægjulegs kynlífs og farsæls. Vill að fólk njóti þess eins ríkulega og það getur. Eins oft og það vill.
Er Guð sem sagt hlynntur öllu sem hann skapaði? Er hann þá líka hlynntur misnotkun á börnum, hungursneyð, slæmum efnahag heimsins, stríðum, morðum, sjálfsmorðum, nauðgunum, losta, öfund, ágirnd og, verstu syndinni af öllum syndum, trúleysi? Hann skapaði þetta jú, fyrst hann skapaði heiminn. Svo segir hann að sá sem horfi á aðra manneskju með girndaraugum eigi að rífa úr sér hægra augað, sem ruglar mig aðeins í ríminu? Má sem sagt njóta kynlífs eins oft og maður vill ef maður rífur fyrst úr sér hægra augað?
Hér eru dæmi um það sem heilagur andi gefur líf:
- Fyrstu vorblómin
- Mennirnir
- Kirkjan
- Jesús (já, eftir að hann dó)
- Biblían (þannig getum við kallað hana lifandi orð)
- Trúin
- Við
Trúirðu ekki að hann hafi gefið þessu öllu líf? En það stendur í Biblíunni.
ÓÓÓÓ. Stendur það í Biblíunni?! Þá hlýtur það að vera hárrétt. Gleymum ekki að það stendur líka í Biblíunni að Guð hafi skapað heiminn, að illur snákur hafi tælt Evu til að éta epli af töfratré, að Móses og hans fylgisveinar hafi þvælst um einhverja eyðimörk í 40 ár, að maður eigi að rífa úr sér hægra augað ef maður horfir á einhvern í girndarhug (en samt á Guð að vera hlynntur kynlífi) og að maður eigi að skera af sér hægri hendina ef “hún tælir mann til falls”. Mér er sko sama hvað nokkur maður segir, heilagur andi er sko VÍST til og gefur sko öllu líf.
Ég hvet ykkur öll til að lesa þessa bók, þar sem að hún kemur til með að fæla venjulegt fólk frá kristni frekar en öfugt og þá verð ég ofboðslega hamingjusöm.