Ég er trúleysingi. Ég er ekki í Þjóðkirkjunni, ég fer ekki í kirkju, ég fer ekki með bænir og ég forðast allar athafnir tengdar trúarbrögðum eins og heitan eldinn. Ég hef þó ekki alltaf verið trúlaus, ég var alin upp í kristinni trú, sem hefur ollið mér hugarangri, og jafnvel gremju, undanfarin ár. Það byrjaði þannig að ég fæddist og var skráð í Þjóðkirkjuna (trúfélag móður) án þess að hafa nokkuð um það að segja. Skömmu eftir það var ég svo skírð, án þess að hafa nokkuð um það að segja, heilögu vatni er skvett á mig og mér er gefið nafn. Þá var það ákveðið, þessi manneskja er kristin og það skiptir engu máli hvað henni gæti fundist um það hefði hún eitthvað vit á þessu. Í framhaldi af þessu er ég svo send á kristilegan leikskóla, sem er einnig sjálfstæð stofnun innan Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri. Þar var, og er enn, “mikið lagt upp úr kristilegu starfi og er það haft sem útgangspunktur fyrir annað starf”. Ég man ekki mikið frá þeim árum sem ég eyddi þarna, en þarna fóru fram bænastundir, við sungum lög um Jesús, leikskólakennararnir töluðu fallega um Guð og það voru heimsóknir frá mönnum Hvítasunnukirkjunnar inn á milli. Mig rámar líka í eitthvað leikrit um Jesús sem við vorum látin leika fyrir foreldra okkar. Bersýnilegt er að ég fékk ekki einu sinni séns á að hafa aðrar skoðanir eða trúa einhverju öðru heldur en að Guð væri frábær og þeir sem halda öðru fram eru bara vondir.
Svo tók grunnskólinn við. Þar var mér kennd kristinfræði, trúarinnrætingin hélt áfram. Hugsunarháttur minn á þessum tíma var sá að þeir sem trúa á Guð séu góðir, þeir sem gera það ekki eru vitlausir eða jafnvel illa innrættir og þeim bar að vorkenna. Mér fannst ég því alveg rosalega góð kristin manneskja, að líta ekki niður á þá sem trúðu ekki því sem ég trúði heldur vera góð við þá, því þeir geta ekki að því gert að þeir eru svona. Er þetta eitthvað heilbrigður hugsunarháttur sem þarna var búið að innræta í mig? Nei. Í dag, þegar ég hugsa til baka, finn ég bara til skammar fyrir að hafa hugsað svona. En ætti ég að skammast mín? Hef ég eitthvað til að skammast mín fyrir? Í rauninni ekki. Þetta er sá hugsunarháttur sem fólkið í kringum mig sagði mér að væri góður og réttur. Auðvitað trúði ég þeim, enda sá ég ekki ástæðu til annars. Það stingur mig ennþá í dag þegar ég hugsa til þess að hafa nokkrum sinnum litið niður á aðra nemendur skólans sem ég gekk í fyrir það eitt að trúa öðru en því sem ég trúði. Það voru nokkrir nemendur sem fóru ekki í kristinfræði, sem mér fannst alveg fáránlegt. Af hverju í ósköpunum ekki, spurði ég einn kennarann. Svarið sem ég fékk var að þeir væru Vottar Jehóva. Seinna var útskýrt fyrir mér í hverju þeirra trú felst og að þeir halda ekki jól. Það var útskýrt fyrir mér með orðunum “Þetta er bara nískt pakk sem tímir ekki að halda jól. Þau vilja greinilega ekki taka þátt í neinu sem er fallegt og gott”. Þarna var það komið á hreint fyrir mér, þeim bar ekki að vorkenna heldur ætti ég bara að líta niður á þau, enda ætti þetta níska pakk ekkert annað skilið.
Að nýta sér sakleysi barns sem veit ekki betur og innræta þennan afkáralega hugsunarhátt í það er svívirða, mér er alveg sama hver á í hlut.
Seinna fór ég í annan skóla hinum megin á landinu, ég var tólf ára. Þar kenndi mér kona sem sagði mér að hún væri trúleysingi. Það hafði ég ekki heyrt um áður. Það var búið að fræða mig um ýmis trúarbrögð en trúleysi hafði ég aldrei heyrt um áður. Ég var tólf ára og hafði aldrei fengið að heyra að það væri alveg í boði að trúa ekki. Ég spurði konuna hvað í ósköpunum hún ætti við, trúði hún þá bara ekki á neitt? Nei, svo var ekki. Það sem mér fannst skrítnast við þetta allt saman var það að ég leit ekkert niður á hana fyrir trúleysi hennar og ég fann ekki neina þörf á að vorkenna henni, mér fannst þetta í allra bestasta lagi og mér líkaði ávallt mjög vel við þessa konu. Ég fermdist að sjálfsögðu, eins og öllum góðum mönnum bar að gera. Það var svo ekki fyrr en ég varð eitthvað eldri, og var komin með frið fyrir trúboðun, að ég fór að velta fyrir mér þeim möguleika að trúa ekki, að það væri kannski bara ágætt. Þegar ég var að verða sautján ára fermdist stjúpsystir mín og það var þá sem það rann upp fyrir mér að allt þetta sem hafði verið innrætt í mig, ég einfaldlega trúði því ekki. Ég sat í kirkjunni og fylgdist með athöfninni og hugsaði “Af hverju í ósköpunum fermdist ég eiginlega? Þetta er mesta kjaftæði sem ég hef nokkurn tímann heyrt”. Einhverju seinna skoðaði ég kristinfræðibók ungrar frænku minnar og mér bauð við lestrinum. “Hverjum datt í hug að kenna börnum þetta?” Ég hef kynnt mér trúarbrögð og kristni meira síðan þá og ranghvolfi alltaf augunum yfir þessu. Guð skapaði heiminn, Adam og Eva, Jesús reis upp frá dauðum, Móses og eyðimörkin, Örkin hans Nóa…hverskonar fullorðin manneskja með vott af almennri skynsemi trúir þessu? Ég tel mig nokkuð vissa um að ef trú væri ekki innrætt í fólk á meðan það er börn, heldur þegar það er orðið fullorðið, þá yrði hlegið að þeim sem reyndu að halda þessu fram.
Ég veit ekki af hverju ég einfaldlega hætti að trúa þessu, án þess að einhver innrætti trúleysi í mig eins og trúnni var troðið upp á mig. Ég hallast að því að almenn skynsemi hafi tekið við af barnslegu sakleysi mínu. Svo er það annað sem stingur mig, þegar fólkið í kringum mig segir að ég þurfi að virða trúarbrögð annarra. Þarf ég þess eitthvað? Nei, auðvitað ekki. Það að “virða trúarbrögð annarra” er eitthvað sem hvarflar ekki einu sinni að mér. Guð er sköpunarverk mannsins, ekki öfugt, og ég þarf ekkert að virða það frekar en einhvern stól úr Ikea. Guð og þessi trú, himnaríki og helvíti er eitthvað sem er bara í hausnum á veikgeðja fólki, afsakið hreinskilni mína. Ekkert af því trúaða fólki sem ég þekki hefur nokkurn tímann virt trúleysi mitt. “Skemmtu þér í helvíti” er dæmi um það sem ég hef heyrt frá þessu fólki.
Samkvæmt þeim (þetta á vissulega ekki við um allt trúað fólk, ég er aðeins að tala um aðila sem ég þekki persónulega) hef ég um tvennt að velja; að trúa ekki og brenna svo í eldi að eilífu þegar ég dey eða gera það sem ég gerði áður, að trúa og finnast þeir sem trúa ekki því sem ég trúi aumkunarverðir og/eða illa innrættir, og neyða svo þessari trú minni upp á þau börn sem ég mun mögulega eignast einhvern daginn. Nei, því mun ég ekki taka þátt í, frekar brenn ég í helvíti um ókomna eilífð þegar ég hrekk upp af.