Kæru Hugarar,

Vegna þeirra umræðu um hvort sé verra, nauðgun eða morð, ákvað ég að segja nokkur orð. Það allra fyrsta sem ég vil segja er, þessi umræða er hugmyndafræðilega röng frá byrjun til enda og því tilgangslaus með meiru.

Af hverju?

Það sem er rangt við þessa umræðu er margþætt:
Í fyrsta lagi, þá er mjög mismunandi „að myrða“ eða „að nauðga“; „vera myrtur“ eða „vera nauðgað“. Ef þú myrðir eða nauðgar einhverjum þarftu að lifa við afleiðingarnar. Þessar afleiðingar geta verið fólki mjög slæmar (t.d. samviskubit og þunglyndi það sem eftir er ævinnar sem gera lífsgæði nánast engin svo lengi sem þú átt eftir ólifað) eða mjög þolanlegar (t.d. andfélagslegur persónuleiki).

Í öðru lagi er annar af umræddum þáttum lífsreynsla (nauðgun) á meðan hitt er endir lífs og því felur í sér enga reynslu.

Þegar þið talið um „hvort sé verra“ verðið þið að gera ykkur grein fyrir að þið getið ekki talað um hlutina út frá sama sjónarhorni. Ef þér er nauðgað þarftu að lifa með afleiðingunum eins lengi og þú átt eftir ólifað. Ef þú ert drepinn, þá þarftu ekki að lifa með neinu. Dauðinn er algjör endir, þannig að látinni manneskju er alveg sama þótt hún sé dáin.

Eina leiðin til þess að mögulega ræða um hvort sé verra, dauðinn eða nauðgun, er ef þið nálgist dauðann út frá lífsreynslu þeirra sem viðkomandi þekkti á meðan þið nálgist nauðgunina út frá þeim einstakling sem fyrir henni varð. Ef viðkomandi þekkti „engann“ og spilaði engann þátt í lífi annara, þá, röklega séð, er öllum sama um lát einstaklingsins, sem og honum sjálfum. En jafnvel þá er umræðan gölluð með öllu.

Af hverju?

Vegna þess að öll lífsreynsla er afstæð. Hver sú lífsreynsla sem við verðum fyrir hefur einstaka merkingu í lífi hvers og eins. Óteljandi hlutir hafa áhrif á það hvernig við túlkum það sem kemur fyrir; blanda af umhverfi og erfðum. Sem dæmi, ímyndið ykkur tvær ungar stúlkur. Önnur kemur úr fátækt og eymd og veit fullvel hvað heimurinn býr yfir mikilli illsku á meðan hin kemur úr ofvernduðu umhverfi þar sem hún hefur aldrei fengið að finna fyrir lífsins ólgusjó. Ef þessar stúlkur myndu báða verða fyrir samskonar nauðgun; haldið þið að sú nauðgun myndi hafa sömu áhrif á þær báðar, þeirra framtíð og þeirra batahorfur?

Sama á við morð. Að missa einhvern nákominn vegna þess að hann var myrtur hefur mismunandi áhrif á hans nánustu. Þessir þættir líkt og áður eru óendanlega margir, sem dæmi: Hversu náin voru þau? Hver eru menningarleg viðmið í tilteknu landi fyrir dauðanum og hvernig viðkomandi dó? Er viðkomandi að skilja eftir sig einn nákominn sem hefur engan til að styðja við sig eða er hann að skilja eftir sig fjölskyldu? O.s.frv.

Allir þessir þættir – og því þessar umræður í heild sinni, eru með öllu ósambærilegar og byggjast á afmarkaðri og einstakri upplifun við hvert einasta dæmi.

Ég bið ykkur því að láta af þessari umræðu þar sem henni fylgir ekkert nema rifrildi og ærumeiðingar.

Kær kveðja,
Fróðleiksmoli